Þingflokkur Pírata, auk fjögurra meðflutningsmanna, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem meðal annars felur í sér að rafræn uppfletting í ársreikningaskrá verður gjaldfrjáls. Hægt hefur verið að nálgast ársreikninga íslenskra félaga endurgjaldslaust á vef Skattsins frá áramótum.

Uppfært 27. jan '21 kl. 11.18 Frumvarpið hefur verið leiðrétt á vef þingsins á þann veg að aðeins er nú lagt til að opnað verði á hlutafélagaskrá.

Þetta er í fjórða sinn sem umrætt frumvarp er lagt fram en það kveður á um að rafræn uppfletting í ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá verði gjaldfrjáls. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem fyrr er Björn Leví Gunnarsson en hann hafði áður verið fyrsti flutningsmaður frumvarps sem opnaði á gjaldfrjálsa leit í fyrirtækjaskrá. Þótt leitin sé gjaldfrjáls kostar enn að fá afrit af skjölum úr skránni.

Þegar fyrra frumvarpið var samþykkt, það er það sem lýtur að fyrirtækjaskrá, töldu Píratar sig vera að opna á ársreikninga félaga en í greinargerð með frumvarpinu sagði að „nú [væri] aðeins hægt að fá upplýsingar um stjórn og ársreikninga félaga með því að greiða fyrir þær og telja verður að þær séu því ekki aðgengilegar almenningi.“

Lögum um ársreikninga var breytt á síðasta ári á þann veg að Skattinum yrði gert skylt að gera ársreikninga aðgengilega á vef sínum. Sú breyting tók gildi um áramótin og hefur síðan þá verið hægt að nálgast ársreikninga þar með einföldum hætti.

Auk þingflokks Pírata standa báðir þingmenn Flokks fólksins að frumvarpinu nú sem og Jón Steindór Valdimarsson, Viðreisn, og Andrés Ingi Jónsson utan flokka.