Kapteinn Pírata á Vestfjörðum vill fella eigin lista. Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir, sem lenti í 6. sæti listans fyrir prófkjör flokksins í Norðvesturkjördæmi, vill að listinn verði felldur í netkosningu sem nú stendur yfir þar sem allir flokksmenn Pírata á landsvísu eru beðnir um að samþykkja eða fella niðurstöður prófkjöra flokksins í einstökum kjördæmum.

Fáir þekkja hann og treysta

Þórður Guðsteinn Pétursson tók fyrsta sætið í prófkjörinu þar sem 95 manns tóku þátt, en Halldóra Sigrún sem er kafteinn Pírata á Vestfjörðum segir ekki „boðlegt að hafa mann sem fáir þekkja og treysta í efsta sæti.“

Ekki sé heldur boðlegt að enginn Vestfirðingur sé í efstu fimm sætum listans segir hún.

Nánasta fjölskylda sem telur 30 manns beðin að skrá sig og kjósa

Þórður Guðsteinn segir í samtali við RÚV að það hafi komið honum í opna skjöldu að vera svona ofarlega á listanum, en telur sig ekki hafa smalað í prófkjörið líkt og hann hefur verið sakaður um. Hann hafi hins vegar beðið nánustu fjölskyldu að skrá sig í flokkinn og kjósa sig.

„Eldhúsborðið við jólin er um 30 manns. Það fékk enginn neitt veraldlegt fyrir að kjósa mig,“ segir Þórður Guðsteinn. Smári McCarthy einn af stofnendum Pírata og oddviti í Suðurkjördæmi segist hallast að því að samþykkja listann.

Nýtt prófkjör sömu frambjóðenda en kosið á landsvísu ef listinn verður felldur

Ef listinn verður felldur af pírötum á landsvísu, þá fer fram nýtt prófkjör með sömu frambjóðendum, nema þeim sem hafa dregið framboð sitt til baka, en þá megi allir píratar á landsvísu kjósa í prófkjörinu.