Hagfræðingurinn Ólafur Arnarson stefnir á það að setja í loftið nýjan vefmiðil í vikulokin. Hann mun heita tímarím.is og mun hann fjalla um málefni líðandi stundar á gagnrýninn hátt.

Ólafur segir í samtali við DV í dag nafnið vísa til gamals íslensks kveðskapar sem vísi til þess að tímarímur hafi verið samtímaádeila síns tíma og gagnrýni á spillt yfirvöld.

Fram kemur í blaðinu að hann muni sjá um síðuna einn en fá valda einstaklinga til að fjalla um sértæk mál og málefni.

Ólafur er pistlahöfundur Pressunnar og skrifað þar á gagnrýninn hátt um hugðarefni sín, svo sem gegn bönkunum og mælt fyrir skuldaafskriftum og fleiru til ásamt því að vera á tímabili á meðal reglulegra gesta í Silfri Egils Helgasonar á RÚV. Þá skrifaði Ólafur sömuleiðis bókina Sofandi að feigðarósi sem fjallaði um aðdraganda hrunsins.