Þau Stefanía Thors, Helgi Svavar Helgason og Ágúst Einþórsson tóku nýverið yfir rekstur Kaffi Rauðku á Siglufirði. Hugmyndin var að opna pítsustað sem býður upp á lifandi tónlist. „Hér áður var rekinn bistro staður en það hefur verið lítill rekstur síðustu tvö árin. Okkur var síðan boðið að taka við rekstrinum og hoppuðum í raun á það tækifæri með mjög skömmum fyrirvara,“ segir Helgi og bætir við að rekstur staðarins hafi verið kominn af stað rúmlega viku eftir að þau fengu tilboðið um að taka við rekstrinum. Hann segir jafnframt að hann hafi lengi gengið með þann draum í maganum að opna veitingastað.

„Mig hefur lengi dreymt um að opna veitingastað í Reykjavík og var búinn að gera tvær tilraunir til þess sem gengu reyndar ekki upp vegna utanaðkomandi aðstæðna. Þess vegna, þegar við fengum boðið um að taka við rekstri Rauðku, þá leit ég á það sem kjörið tækifæri til að opna veitingastað.“

Hann bætir við að staðurinn hafi fengið gríðarlega góðar viðtökur. „Við höfum fengið alveg brjálæðislega góðar viðtökur. Það er einfaldlega aldrei dauð stund hjá okkur og við seljum allan liðlangan daginn. Við höfum stundum neyðst til að loka í 30 mínútur bara til þess að við höfum tíma til að skera niður hráefni og græja allt,“ segir Helgi og bætir við að það standi til að ráða inn fleira starfsfólk.

Gleðin í fyrirrúmi

Kaffi Rauðka býður ekki aðeins upp á ekta ítalskar pítsur heldur leggur staðurinn einnig mikið upp úr upplifun viðskiptavina og hljómar lifandi tónlist oft á veitingastaðnum. „Ég er búinn að starfa sem tónlistarmaður í yfir tuttugu ár, meðal annars sem trommari hjá Hjálmum og Ásgeiri Trausta, og hef myndað mörg sambönd í tónlistarheiminum. Um leið og við tókum við staðnum þá fór ég að hringja símtöl og bóka tónlistarmenn til að spila á staðnum. Við höfum aðstoðað listamennina sem spila hjá okkur með að fá gistingu og síðan fá þeir líka að borða og drekka hjá okkur.“

Helgi bætir við að gleðin sé ávallt í fyrirrúmi á Kaffi Rauðku og það skipti ekki máli í hvaða skapi gestirnir eru í þegar þeir koma á staðinn, það fari allir glaðir út. „Um daginn héldum við heimatónleika með Helga Björns sem slógu alveg í gegn og færri komust að en vildu. En það er mikið á döfinni hjá okkur og við hlökkum til framhaldsins.“

Pítsubotnar úr súrdegi og ferskt hráefni

Ágúst Einþórsson, stofnandi Brauð og Co og einn af rekstraraðilum Kaffi Rauðku, segir að hann hafi lengi gælt við þá hugmynd að byrja að baka pítsur. „Ég var lengi búinn að spá í því. Við notum aðeins besta hráefnið. Við bökum pítsur með súrdeigsbotnum og við erum til að mynda að fá sérstaka tómata frá Sikiley sem eru bestu tómatar sem ég hef smakkað. Við notum ferskt hráefni og ferskan mozzarella ost á okkar pítsur. Það er gaman að segja frá því að við kláruðum allan mozzarella-ostinn á Tröllaskaga þegar við opnuðum.“

Hann bætir við að þau lofi miklu fjöri og góðri stemningu fyrir alla sem leggja leið sína á Siglufjörð. „Ég hef gaman af því að baka og finnst gaman að halda partý þannig að ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu. Við stefnum að því að halda mikið af viðburðum, baka pítsur og bjóða upp á lifandi tónlist.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .