Ljósmyndafyrirtækið Pix-myndir hefur fallist á að láta af svonefndri neikvæðri samningsgerð varðandi skólaljósmyndir af grunnskólabörnum og er sú ákvörðun þegar komin til framkvæmda.

Þetta kemur fram á vef talsmanns neytenda, en í morgun var greint frá því að talsmaður neytenda , Gísli Tryggvason hefði sent Pix-myndum tilmæli þar sem farið var fram á að ekki verði notast við svokallaða neikvæða samningsgerð.

Á vef talsmanns neytenda kemur fram að Pix-myndir hafi haft samband við talsmann neytenda, Gísla Tryggvason í kjölfar tilmæla, sem send voru fyrirtækinu í síðustu viku og kynnt opinberlega í dag á vef talsmann neytenda.

„Staðfest er að fallist sé á tilmælin og að þau séu þegar komin til framkvæmda með því að framvegis verði notast við sérstakt samþykki forráðamanna skólabarna í vefverslun,“ segir á vef talsmanns neytenda.

Samkvæmt vef talsmanns neytenda hefur Pix-myndir (Pix ehf.) einnig fallist á að afturkalla kröfur í innheimtu sem eru komnar til með því að líta á þögn sem samþykki.

„Um leið benti fyrirtækið á önnur fyrirtæki sem notast við sömu aðferð og verður það kannað í kjölfarið,“ segir á vef talsmanns neytenda.