Pítsakeðjan Pizzan ehf. tapaði 235 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 84 milljóna tap árið 2020. Hlutafé Pizzunnar var aukið um 360 milljónir króna á síðasta ári, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Pizzan rekur átta veitingastaði, sjö á höfuðborgarsvæðinu og einn á Akureyri. Rekstrartekjur skyndibitakeðjunnar jukust um 30% frá fyrra ári og námu 1.367 milljónum króna. Hjá félaginu stöfuðu að meðaltali 64 manns á síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu 681,7 milljónum króna.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 380 milljónir í lok síðasta árs. Til samanburðar voru eignir félagsins 196 milljónir árið áður.

Eigið fé var neikvætt um 135,6 milljónir í árslok 2021 þrátt fyrir aukningu hlutafjár. Langtímalán fyrirtækisins, sem námu um 157 milljónum, voru nær alfarið greidd niður. Skammtímaskuldir jukust hins vegar um meira en 200 milljónir á milli ára og námu 515,5 milljónum í lok síðasta árs.

Pizzan er að fullu í eigu Ólafs Friðriks Ólafssonar.