Leigubíllinn, hvít Toyota Corolla, þaut eftir malbikuðum N-40 þjóðveginum í Pakistan dag einn í síðari hluta maí mánaðar 2016. Farþeginn var þrekinn maður að nálgast fimmtugt, Akhtar Mansour að nafni. Dagblaðið New York Times lýsti því sem næst gerðist svo: „Nærri smábænum Ahmad Wal, þar sem vegurinn liggur aðeins rúma þrjátíu kílómetra frá landamærum Afghanistan, smugu Hellfire-flugskeyti sem skotið var úr bandarískum dróna inn í bílinn, fyrst í framhlutann og þar á eftir í farþegarýmið. Melónubændur í nágrenninu hlupu að brennandi flakinu og mokuðu mold á bálið, en var fyrirmunað að bjarga mönnunum í bílnum.“

Yfir 400 árásir dróna í Pakistan

Mansour hafði verið leiðtogi Talibana í Afganistan um eins árs skeið og var að koma úr heimsókn til Íran þar sem hann hafði falast eftir vopnum og stuðningi fyrir hernað hreyfingar sinnar. Eftir að bandarískir leyniþjónustumenn komust á snoðir um hvaða SIM-kort hann notaði veittist þeim auðvelt að fylgjast með honum bæði í gegnum njósnahnetti og eftirlit á jörðu niðri, samkvæmt úttekt Wall Street Journal á seinustu ævistundum afganska vígamannsins.

Á milli 2004-2017 hafa Bandaríkjamenn gert yfir fjögur hundruð mannlausar drónaárásir í Pakistan sem hafa grandað yfir 3.000 manns ef marka má gögn frá New America Foundation. Drónarnir eru þó aðallega notaðir í njósnaskyni, þeir geta verið á lofti í um 17 klukkustundir í einu og veitt herafla á jörðu niðri mikilvægar upplýsingar fyrir tilstilli myndavéla, radartækja, miðunar-geisla og annars hátæknibúnaðar sem þeir hafa að geyma. Mörgum þeirra er fjarstýrt frá herstöð í Nevada-ríki í Bandaríkjunum, í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá tækjunum sem sveima yfir hernaðarlega mikilvægum stöðum í Mið-Austurlöndum.

Sjálfvirkur akstur eða sjálfvirk eyðing?

Drónarnir eru þó aðeins eitt af ótal dæmum um hvernig herveldi heimsins nýta sér hátækni í stríðsrekstri sínum og njósnastarfsemi, og gervigreind og tölvustýrð tæki eru sífellt meira að ryðja sér til rúms á þeim vettvangi. Paul Scharre, höfundur bókarinnar Army of None: Autonomous Weapons and the Future of War, sagði frá því í grein í Time í fyrrahaust að yfir þrjátíu lönd ættu eða væru að þróa vopnaða dróna og sjálfvirkni drónanna ykist með hverri nýrri kynslóð þeirra. „Samsvarandi hugbúnaður og lætur sjálfkeyrandi bíla forðast vegfarendur, gæti verið notaður í vopnum framtíðar til að elta uppi og ráðast á skotmörk á eigin spýtur,“ segir Scharre.

Bandaríkjamenn, Rússar og Kínverjar og fleiri hernaðarveldi nýta sér til dæmis gervigreind til að greina myndefni frá drónum á margfalt hraðari hátt en mönnum er kleift. Bandaríkjamenn hafa seinustu fjögur ár lagt aukinn þunga í þróun þessarar tækni, í þeirri vissu að tölvukerfin geti unnið hraðar en menn, brugðist sjálfvirkt við og tekið ákveðnar ákvarðanir, innan þeirra marka sem forritar þeirra setja. Árið 2017 er talið að varnarmálaráðuneytið hafi eytt um 7,4 milljörðum dollara í gervigreind og það sem henni tengist, svo sem gagnagnótt og tölvuský, tæplega tveimur milljörðum dollara meira en það gerði árið 2012. Sumir telja þessa upphæð langtum hærri.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Í blaðinu er ítarleg umfjöllun um fjórðu iðnbyltinguna. Hægt er að óska eftir áskrift að Frjálsri verslun með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected] .