Tölvuleikjaframleiðandinn Plain Vanilla er að undibúa opnun á skrifstofu í New York, þetta staðfestir Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla, í samtali við Viðskiptablaðið. Þorsteinn segir að ákveðið hafi verið að opna skrifstofuna þar sem fyrirtækið er að leggja meiri áherslu á sölu- og markaðsstarf í Bandaríkjunum.

„Við erum með talsvert af samstarfsaðilum í Bandaríkjunum og það er okkar lang stærsti markaður, þess vegna viljum við, og höfum verið að plana í nokkurn tíma að auka umsvif okkar í Bandaríkjunum, þetta er bara áframhald að því. Við höfum verið að gera mjög mikið af prófunum á tekjuskapandi samstörfum inni í QuizUp í gegnum árin og nálægð við markaðinn skiptir mjög miklu þegar kemur að slíkum samstörfum, þannig að við vildum auka nærveru okkar," segir Þorsteinn.

Enn er nákvæm dagsetning á opnun nýju skrifstofunnar óljós. Þorsteinn segir einnig að það eigi eftir að koma í ljós hver fjöldi starfsmanna verði í New York. Þorsteinn segir að bæði verði einhverjir starfsmenn fluttir vestur um haf og svo verði nýtt fólk ráðið inn. Hann gerir ráð fyrir að skrifstofan verði blönduð af íslenskum og bandarískum starfsmönnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu:

  • Erlendur fjárfestingarbanki hefur áhuga á að koma til Íslands.
  • Fyrirtæki njóta góðs af ásókn erlendra aðila í íslensk skuldabréf.
  • Matarvögnum í miðbænum fer sífellt fjölgandi.
  • Ódýrara er fyrir félög að skrá sig á First North markaðinn.
  • Sala á Fokker skapar tækifæri fyrir Eyri Invest.
  • Varpað er upp svipmynd af Helgu Hauksdóttur lögmanni.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um álagningarskrár.
  • Óðinn fjallar um jafnréttismál.