Plain Vanilla, sprotafyrirtækið sem hefur meðal annars gefið út snjallsímaleikinn QuizUp og hyggur á framleiðslu sjónvarpsþáttar um sama leik, mun nú segja upp 27 manns. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Í tilkynningu sprotafyrirtækisins segir að stöðugildi hafi verið 86 sumarið 2015. Síðan þá hefur þó nokkrum verið sagt upp - 14 manns í janúar og nú 27 til viðbótar - samtals 41 manns.

Áætla má að stöðugildi fyrirtækisins séu þá orðin 45 talsins, ef miðað er við stöðugildi síðasta sumars. Það þýðir að nánast helmingur þeirra 86 sem störfuðu hjá fyrirtækinu síðasta sumar hafi verið sagt upp.

Stefnt er að því að fyrirtækið skili hagnaði á árinu, en í upphafi árs var greint frá því að Glu Mobile, stórt leikjaframleiðslufyrirtæki, hefði fjárfest í Plain Vanilla fyrir um 7,5 milljónir Bandaríkjadala eða 930 milljónir króna.