*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 22. desember 2016 11:51

Plain Vanilla selur QuizUp til Bandaríkjanna

Plain Vanilla hefur selt QuizUp leikinn til bandaríska fyrirtækisins Glu Mobile. Hluti söluverðsins er greitt með uppgjöri skulda milli fyrirtækjanna.

Ritstjórn
Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla.
Aðsend mynd

Plain Vanilla hefur náð samkomulagi við Glu Mobile um sölu á QuizUp leiknum til bandaríska leikjafyrirtækisins. Heildarverðmæti kaupsamningsins er í kringum 7,5 milljónir dollara en er að hluta greitt með uppgjöri skulda milli fyrirtækjanna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Undanfarið hafa starfsmenn Glu og Plain Vanilla unnið hörðum höndum að yfirfærslu leiksins og hefur teymi frá Glu starfað að því verkefni í höfuðstöðvum Plain Vanilla að Laugavegi 77. Í kjölfar sölunnar munu Plain Vanilla Corp. í Bandaríkjunum og Plain Vanilla á Íslandi hætta rekstri en félögin standa skil á öllum skuldbindingum við starfsmenn sína og lánardrottna.

Tilkynnt var þann 31. ágúst síðastliðinn að Plain Vanilla hygðist loka skrifstofum sínum á Íslandi og færa QuizUp til Bandaríkjanna. Ástæðan var að hætt var við sýningu sjónvarpsútgáfu leiksins í samstarfi við NBC sjónvarpsstöðina og þar með brást rekstrargrundvöllur fyrirtækisins á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Engin starfsemi á Íslandi

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um lokaði Plain Vanilla skrifstofum sínum á Íslandi í lok ágúst á þessu ári. Starfsfólki var sagt frá fyrirhugaðri lokun fyrirtækisins í morgun og fengu allir 36 starfsmenn uppsagnarbréf.  Vonir stóðu til að reksturinn yrði sjálfbær þegar notendum fjölgaði samhliða áætlaðri frumsýningu sjónvarpsþáttaraðar undir merkjum QuizUp á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC næsta vor en þegar ljóst var að ekki yrði af framleiðslu þáttarins brustu rekstrarforsendur til frekari fjármögnunar og þróunar á QuizUp hér á landi.

Stikkorð: Plain Vanilla sala QuizUp Glu Mobile