Leikjafyrirtækið Plain Vanilla var valið sprotafyrirtæki ársins á Nordic Startup Awards sem fram fór í Osló í Noregi á fimmtudag í síðustu viku. Styrktaraðilar keppninnar eru m.a. Facebook, Amazon, Google og Microsoft en þessi stórfyrirtæki velja sigurvegarana í sjö flokkum.

Þetta voru aðalverðlaun kvöldsins. Sigurvegarar í öðrum flokkum voru m.a. Svíinn Carl Waldekranz sem stofnaði fyrirtækið Tictail og var valinn stofnandi ársins, finnska fjárfestingafélagið Lifeline Ventures var valið besti fjárfestirinn, hópfjárfestingasíðan FundedByMe var besta þjónustuveitan, forritunarhetjan var Daninn Jonas Bruun Nielsen sem bjó til Screenmailer, besti nýliðinn var sænska fyrirtækið Jumpstarter og besti blaðamaðurinn var Greg Anderson sem rekur síðuna Arctic Startup.

Aðeins er um hálft ár síðan spurningaleikurinn QuizUp var gefinn út.