Orkuveita Reykjavíkur er aðeins á undan áætlun í aðhaldsaðgerðum sínum, sem kallaðar hafa verið „Planið“. Planið gengur út á að draga úr útgjöldum og auka tekjur hjá fyrirtækinu til ársins 2016. Ein af ástæðunum er sú að af 240 milljarða króna skuldum fyrirtækisins eru 107 milljarðar á gjalddaga til ársins 2016. Markmiðið er að bæta rekstrarstöðuna samtals um fimmtíu milljarða króna á árunum 2011 til 2016 og að geta staðið undir greiðslubyrðinni og rekstri fyrirtækisins án þess að taka frekari lán.

Fyrir allt árið 2011 er gert ráð fyrir því að staðan batni um 11,5 milljarða króna. Þar af eru 8 milljarðar víkjandi lán frá eigendum OR. Þessu markmiði var nær náð á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs, en upphæðin sem búið var að ná í lok september nam 11,2 milljörðum. Allt útlit er því fyrir að markmið ársins í ár náist.

Fyrirtækið verði bankavænt

Munar þar miklu um að lækkun fjárfestinga í veitukerfum hefur verið meiri en áætlanir miðuðu við og þá hefur rekstrarkostnaður lækkað mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Rekstrarkostnaður átti að lækka um 300 milljónir á árinu samkvæmt planinu, en á þriðja ársfjórðungi hafði hann lækkað um tæpar 500 milljónir. Þar skiptir mestu að fækkun starfsmanna hefur verið mun hraðari en gert hafði verið ráð fyrir. Hefur það verið gert með því að ráða ekki í stað þeirra sem hætta og þá hefur eldri starfsmönnum verið boðið að fara fyrr á eftirlaun. Fimm starfsmönnum hefur verið sagt upp á árinu.

Þrátt fyrir að planið gangi út á að ekki út á að OR taki lán á þessu sex mánaða tímabili er markmiðið samt að gera fyrirtækið bankavænt, þannig að hugsanlega sé hægt að endurfjármagna hluta skuldastabbans sem er á gjalddaga á næstu árum.