Planið, sérstök fjárhagsáætlun sem var gerð fyrir Orkuveituna, hefur skilað 2,5 milljörðum meira en markmið gerðu ráð fyrir þegar áætlunin var gerð árið 2011. Þetta kemur fram í Markaðspunktum Arion banka.

Orkuveitan gerði ráð fyrir í áætlunum sínum að sparnaðar- og hagræðingaraðgerðir Plansins væru á þessum tímapunkti búnar að skila um 28 milljörðum króna en raunin er rúmir 30 milljarðar.

Við lok vetrar 2011 kynnti Orkuveita Reykjavíkur umfangsmikla aðgerðaáætlunina. Planið er sex ára áætlun og var sett saman til að skjóta sterkari stoðum undir rekstur og starfsemi fyrirtækisins. Greiningardeild Arion banka rifjar upp í dag að þegar áætlunin var kynnt hafi fjárþörf Orkuveitunnar verið metin 50 milljarðar á árunum 2011-2016. Orkuveitan fékk á sig mikið högg þegar krónan veiktist hvað mest, þar sem nær allar skuldbindingar félagsins eru gengistryggðar.

Meðal hagræðingar- og sparnaðaraðgerða Plansins eru eftirfarandi atriði:
• Frestun á fjárfestingu í fráveitu um tvö ár til að spara fjármagnskostnað. Lækkun fjárfestinga í veitukerfum, upplýsingakerfum og fasteignum.
• Fækkun starfsfólks, lækkun launakostnaðar sem og annarra kostnaðarliða starfseminnar.
• Sala á eignum sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi fyrirtækisins, bæði fasteignum sem og eignahlutum í fyrirtækjum.
• Tekjuaukning með hækkun gjaldskrár.
• Víkjandi lán frá eigendum til að koma í veg fyrir sjóðþurrð á fyrri hluta tímabils.

Samtals eiga hagræðingaraðgerðir OR að skila rúmlega 51 milljarði og brúa fjárþörf fyrirtækisins til ársins 2016.