*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Frjáls verslun 19. maí 2018 15:15

Plantar trjám fyrir næstu kynslóð

Margrét Guðmundsdóttir hefur komið víða við á löngum ferli. Hún segir stjórnarhætti á Íslandi hafa breyst mikið til hins betra.

Gunnar Dofri Ólafsson
Þröstur Njálsson

Þetta eru náttúrulega bara þrælabúðir, maður er alveg á milljón þegar þetta er í gangi. Við höfum plantað einhverjum 70.000 plöntum,“ segir Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, um starf sitt sem og mannsins hennar, en þau eru skógarbændur á Breiðabólstað á Skógarströnd á Snæfellsnesi.

„Séra Sigurbjörn Einarsson biskup vígðist þar til prests. Við hjónin höfum átt jörðina frá 2001. Við gerðumst þar skógarbændur og erum búin að vera að planta í einhver fimm eða sex ár. Maður þarf að vera pínu klikkaður til að gera þetta, eða pínu hugsjónamanneskja,“ segir Margrét og brosir. Margrét er auðvitað síst þekkt fyrir störf sín sem skógarbóndi. Í raun er erfitt að titla Margréti með einföldum hætti. Hún er vissulega skógarbóndi en miklu þekktari fyrir reynslu sína úr atvinnulífinu, sérstaklega í olíu- og lyfjageirunum. Hún var framkvæmdastjóri hjá Skeljungi 1995 til 2005 og forstjóri Icepharma 2005 til 2016 eftir sameiningu þriggja félaga undir merkjum þess. Hún situr einnig í stjórn Heklu og sat í stjórn ISAVIA, stjórn sem hún sagði skilið við í byrjun apríl eftir eins árs setu. Þá var hún í stjórn SKÝRR þegar félagið var fært úr ríkiseigu og formaður stjórnar Félags atvinnurekenda, sem þá hét reyndar Félag íslenskra stórkaupmanna en listinn er ekki tæmandi.

Skógurinn sem Margrét og maðurinn hennar eru að planta á Snæfellsnesinu er ekki yndisskógur heldur nytjaskógur. Hafið þið fellt einhver tré? „Nei, nei, nei. Það er ekki komið svo langt. Það verður ekki á okkar líftíma, ég geri allavega ekki ráð fyrir því. Ég er að planta trjám fyrir næstu kynslóð. Mér finnst rosalega gaman að gera eitthvað sem skilur eftir sig. Það hefur kannski verið dálítið þema í mínu lífi.“

Fyrsta konan til að kenna hagfræði í Versló

Margrét segist auk þess hafa gaman af því að kenna. Á háskólaárunum kenndi hún til að mynda hagfræði við Verzlunarskóla Íslands. „Mér finnst gaman að sjá að sumir af mínum nemendum eru framarlega í íslensku samfélagi í dag. Eins hefur mér alltaf þótt gaman að vera stjórnandi. Mér hefur þótt gaman að velja fólk og mjög gaman að vinna með ungu fólki, sjá hæfileika þess og reyna að þroska það. Á einhverjum tímapunkti dettur maður út af bananum sjálfur, en þá er einhver sem heldur áfram. Þannig að þetta er pínu hugsjón. Ég var fyrsta konan sem kenndi hagfræði í Verzlunarskólanum. Það þótti svolítið svona vá, stelpa að fara að kenna hagfræði. Mér fannst það mjög gaman.“

Af því að þú nefnir það, hvernig finnst þér staða kvenna í atvinnulífinu hafa breyst á þínum ferli?

„Mér finnst áhugavert að skoða minn eigin feril, án þess þó að vilja vera mjög sjálfmiðuð. Þegar ég lýk viðskiptafræðinni í háskólanum fer ég beint til Brussel að vinna á alþjóðaskrifstofu hjá AIESEC, samtökum viðskiptafræðinema um allan heim. Ég hafði verið formaður samtakanna hér heima og starfað fyrir þau í þrjú ár. Þar var ég, aftur, fyrsta konan til að vinna í stjórnendastöðu þar og starfið var mjög spennandi. Þaðan lá leiðin í meistaranám í Kaupmannahöfn. Þegar ég lýk því fer ég svo í olíubransann. Þar upplifði ég aldrei að kyn stæði mér fyrir þrifum.

En ég fékk að vita um leið og ég kom inn að ég gæti gleymt ferlinum ef ég yrði ólétt. Þegar ég hins vegar fór í fæðingarorlof var hringt í mig og sagt að ég ætti að taka við af mínum yfirmanni þegar ég kæmi til baka. Síðan skipti ég yfir og fór til Kuwait Petroleum (Q8). Þá var ég búin að eignast annað barnið mitt og fólk varð hissa yfir að ég væri að sækja um framkvæmdastjórastöðu hjá arabísku fyrirtæki, rétt rúmlega þrítug með barn á brjósti. Fljótlega eftir að ég byrja kemur í ljós að Q8 er að kaupa meginhluta reksturs BP í Danmörku.

Ég upplifði því ekki í störfum mínum í Danmörku að það skipti einhverjumáli að maður væri kona. Hins vegar var ég heppin með yfirmenn. Það er mikið atriði. Þegar ég flyt til Íslands og fer að vinna hjá Skeljungi var ég líka mjög heppin með yfirmann. Þá var Kristinn Björnsson heitinn forstjóri. Hann var auðvitað giftur Sólveigu Pétursdóttur þannig að fyrir hann var það heimsins eðlilegasti hlutur að maður væri svona hugsandi.

Það var eiginlega ekki fyrr en ég var komin til Íslands og ég fer að tala við konur og kynnast fleiri fyrirtækjum að ég átta mig á að þetta er ekki allt svona einfalt. Ég hafi bara verið ótrúlega heppin. Þar af leiðandi hef ég eftir það verið miklu virkari í hópum kvenna í stjórnunarstöðum og virk í að vera „mentor“ fyrir ungar konur til að hjálpa þar sem þarf að hjálpa. Strax eftir að ég kom heim 1995 er ég valin í stjórnir fyrirtækja – áður en umræðan um kynjakvóta fer einu sinni af stað. Ég var hins vegar mjög hlynnt kynjakvótunum. Ég var búin að vera það lengi í stjórnun og ég var alltaf eina konan,“ segir Margrét. „Þannig hugsaði ég að ef við ætlum að breyta þessu einhvern tímann þá verður að gera eitthvað í því.“

Heldurðu að kynjakvótarnir nái sínu markmiði?

„Mér finnast þeir virka vel. Stjórnarstörf á Íslandi hafa líka verið að breytast mikið. Stjórnarhættir eru orðnir mjög góðir víðast hvar og mér finnst allir leggja sig fram um að vera með góða stjórnarhætti. En þetta er alltaf lærdómsferli. Mér finnst ég sjálf eiga eftir að læra heilan helling. Maður lifir svo lengi sem maður lærir, ekki öfugt,“ segir Margrét.

Nánar er fjallað um málið í nýju tölublaði Frjálsrar verslunar. Hægt er gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á netfangið askrift@vb.is.