Áætlanir um að framleiða raforku úr sorpi sem breytt hefur verið í plasmagas á Flórída og í Kaliforníu eru nú í uppnámi vegna fjárhagsvanda.

Samkvæmt frétt Discovery News átti að búa til stærstu plasmagas-umbreytingarstöð í heimi á Flórída, en fjárveitingar í verkefnið hafa verið skornar niður um 80%. Með þessu hugðust menn leysa mikinn umhverfisvanda sem fellst í sívaxandi þörf fyrir nýja urðunarstaði sorps.

Í Sacramento í Kaliforníu hefur einnig verið bakslag, en einkum vegna ónógra upplýsinga um hversu mikið af rusli er hægt að umbreyta í plasmagas og hversu mikla raforku er hægt að ná út úr verkefninu.

Bandaríska geimferðastofnunin NASA beislaði ofurheita plasmaorku í fyrsta sinn a sjöunda áratug síðustu aldar til að þróa aðferðir til að koma í veg fyrir að geimför brynnu upp við að koma inn í lofthjúp jarðar. Í framhaldinu fóru stálframleiðendur að nota plasmagastæki til að skera stál.

Fyrir um 20 árum komust vísindamenn af því að ef hitinn er nægur er hægt að breyta nánast hvaða efni sem er í gas. Þegar búið er að umbreyta efni í plasmagas, þarf nánast ekkert súrefni til að mynda bruna.

Þegar rusli er breytt í gas er það hitað með bruna sem er heitari en yfirborð sólarinnar, eða yfir 5.500 gráður á Celsíus. Við þetta verður til plasmagas þar sem ruslið hefur breyst í gas og fast efni. Fasta efnið sem til fellur er síðan hægt að nýta á ný sem fylliefni í ýmsa framleiðslu. Gasið, sem er blanda af vetni og kolefni eða carbon mónoxíði sem líka er kallað “syngas”, er síðan hægt að nýta til framleiða hita fyrir raforkuver, eða til að framleiða fljótandi eldsneyti.

Mark Montemurro, forstjóri Alter NRG sem á einkaleyfið sem er bakgrunnur Kaliforníu-verkefnisins, segir ávinninginn vera mikinn. Hann felist þó aðallega í því að við að umbreyta sorpi í gas sé hægt að ná út tvöfalt meiri orku úr ruslinu en hægt er við venjulegan bruna.