Plastiðjan á Selfossi hefur verið í mikilli sókn en það er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var í maímánuði árið 1973. Í fyrstu var fyrirtækið á Eyrarbakka en fluttist síðar að Gagnheiði 17 á Selfossi. Nú er fyrirtækið leiðandi á sviði framleiðslu, þróunar, hönnunar og sölu umbúða og umbúðalausna til einstaklinga og fyrirtækja.

Úr frauðplasti í dósir og flöskur

Axel Óli Ægisson framkvæmdastjóri segir að fyrirtækið hafi upphaflega byrjað í framleiðslu á kössum og einangrun úr frauðplasti. "Síðan færðum við okkur yfir í að framleiða bakka undir jógúrt- og skyrdósir og annað slíkt. Árið 1987 fórum við að framleiða gosflöskur og framleiddum allt fyrir Ölgerðina frá 1987 til 2001. Þá framleiddum við fyrir alla vatnsútflytjendur nema Vatnsberann. Nýverið lögðum við af frauðplastframleiðsluna og bættum við okkur vélum til að framleiða jógúrt-, skyrdósir og ýmiskonar drykkjarmál. Við endurnýjuðum alveg verksmiðjuna hjá okkur í fyrra og endurskipulögðum framleiðsluna.

Mikil afkastageta

Axel segir að nú starfi um 11 manns hjá fyrirtækinu sem er vel tækjum búið. Afkastagetan er líka mikil og getur fyrirtækið framleitt hátt í 50 milljón plastflöskur (PET - polyethylene terephthalate) á ári. Þá er hægt að framleiða yfir 100 milljón eintök af plastdósum sem í boði eru í einum 14 tegundum. Segir Axel framleiðsluaðferðir Plastiðjunnar við dósagerðina sé það sem kallað er dregnar dósir. Þar er dregin plastfilma yfir mót eða stansa og er hún hituð og lofttæming notuð til að laga filmuna að stönsunum. Gefur þessi framleiðsluaðferð möguleika á margfalt meiri afköstum en eldri aðferðir með sprautusteypu.

„Svo erum við með sex lita beina áprentun á dósirnar sem kemur mjög vel út. Við vorum t.d. að prenta á jógúrtdósir fyrir Latabæ. Það er því nóg að gera og við þurfum svo sannarlega ekki að láta okkur leiðast. Þá eru að opnast allar leiðir fyrir okkur varðandi útflutning með nýjum tækjabúnaði."