Framtakssjóðurinn hefur sett allt hlutafé í Plastprenti í opið söluferli og hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Straums að annast það. Landsbankinn tók Plastprent yfir árið 2009 og breytti miklum skuldum félagsins í hlutafé. Fyrirtækið var síðan fært inn í eignarhaldsfélagið Vestia. Framtakssjóðurinn keypti Vestia síðla árs 2010 og fylgdi Plastprent þá með.

Plastprent framleiðir plastumbúðir og plastfilmur fyrir matvælafyrirtæki auk plast- og pappírspoka og fleira því tengt á tveimur starfsstöðvum, í Reykjavík og á Akureyri. Þegar mest lét var fyrirtækið sömuleiðis með rekstur í Færeyjum, Litháen og í Bretlandi. Nú starfs 75 manns hjá Plastprenti.

Í auglýsingu sem birtist um söluna á Plastprenti í fjölmiðlum í dag kemur fram að þeir sem hafi áhuga á félaginu verði að geta sýnt fram á fjárfestingargetu umfram 250 milljónir króna.

Hundruð milljóna lánum breytt í hlutafé

Ársreikningur fyrirtækisins fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir. Plastprent hagnaðist um 295 milljónir króna það árið en 377 milljónir að teknu tilliti til hagnaðar með aflagðri starfsemi.

Samstæða Plastprents skuldaði tæpa 2,4 milljarða króna í lok árs 2009. Þar af námu skuldir við lánastofnanir tæpum 800 milljónum króna. Árið síðar þegar Landsbankinn hafði tekið reksturinn yfir voru lán gagnvart lánastofnunum komin niður í tæpar 122 milljónir króna.

Í fjárhagslegri endurskipulagningu Plastprents voru dótturfélög félagsins í Litháen og Bretlandi seld og ábyrgðir á lánum eins félaganna felld niður og lánum breytt í hlutafé árið 2010. Þá var rekstrinum lokað í Færeyjum. Við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins var lánum upp á tæpar 482 milljónir króna breytt í hlutafé og skuldbatt Vestia sig til að leggja leggja félaginu til 50 milljónir króna í aukið hlutafé til viðbótar. Hlutafjáraukning Plastprents nam því 532,3 milljónum króna.