Skattalöggjöf landsins verður „plástruð“ tímabundið til að bregðast við áfellisdómum er varða Ísland hjá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Fyrri hluta næsta árs verður skattaðila ekki gert að greiða álag á stjórnsýslustigi ef fyrirséð er að mál hans verði sent í ákærumeðferð. Þetta er meðal þess sem felst í frumvarpsdrögum til ýmissa breytinga á lögum um skatta og opinber gjöld.

Sem kunnugt er var Ísland dæmt brotlegt við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) en greinin mælir gegn banni við tvöfaldri refsingu eða tvöfaldri málsmeðferð fyrir sama brot. Í raun hefur það gerst í þrígang og fjórða málið til meðferðar fyrir dómstólnum. Fyrsti dómurinn var kveðinn upp árið 2017 en þó 30 mánuðir séu liðnir frá honum er lagaumhverfið enn hið sama.

Í dóminum felst að heimilt sé að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að beita álagi á stjórnsýslustigi og höfða síðan sakamál vegna sömu atvika. Til þess þurfa málin, það er stjórnsýslumálið og sakamálið, að vera nægjanlega samþætt bæði í tíma og efni. Mörg mál hafa hins vegar fallið á umræddu prófi og rekstur mála ekki gengið nægilega vel. Fjallað er ítarlega um málið í úttekt sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

Í vor var skipuð nefnd til að bregðast við dómum MDE. Umrædd nefnd skilaði af sér um miðjan septembermánuð og eru tillögurnar nú í vinnslu hjá hlutaðeigandi ráðuneytum. Breytingarnar sem nú eru lagðar til eru til bráðabirgða til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi.

Heimild til að beita álagi eftir að mál er fellt niður

Í breytingunni nú er lagt til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við í lög um tekjuskatt, lög um virðisaukaskatt og lög um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í henni felst að á fyrri helmingi næsta árs skuli álagi ekki beitt á fyrri helmingi næsta árs ef málinu hefur verið vísað til refsimeðferðar. Þar með er hins vegar ekki öll sagan sögð. Ef málsmeðferð lýkur endanlega án þess að ákæra sé gefin út eða án þess að aðili sæti verulegri viðbótarrannsókn verður heimilt að senda málið á ný til Ríkisskattstjóra, sem þá mun að vísu heita Skatturinn, sem verður heimilt að endurupptaka málið og úrskurða þá um álag. Hið sama mun gilda í tvenns konar öðrum tilfellum. Heimild til endurákvörðunar mun reiknast óháð tímamörkum skattalaga.

„Með því er komið í veg fyrir að mismunun eigi sér stað milli einstaklinga þar sem sú staða gæti annars komið upp að engri refsingu yrði beitt. Þetta krefst aukinnar samvinnu milli skattyfirvalda og ákæruvalds sem hefur gengið með ágætum til þessa. Gert er ráð fyrir því að ákvæðið taki til allra mála sem ekki hafa verið tekin til úrskurðar um endurákvörðun við gildistöku þess,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Fyrirhugað er að á meðan bráðabirgðaákvæðin eru í gildi verði unnið að gera breytingar á skattalögum til framtíðar hvað varðar tvöfalda refsingu skattalaga brota sem og tvöfalda rannsókn.

Brugðist við úrskurðum yfirskattanefndar

Þetta er ekki einu breytingarnar sem felast í frumvarpinu. Meðal annars er lögð til undanþága til handa aðilum, sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi, frá staðgreiðslu af söluhagnaði íslenskra hlutabréfa og stofnbréfa. Þá verður rekstraraðilum gert skylt að leggja fram með skattframtali ársreikning ásamt sundurliðunum og skýringum.

Þá verður gerð breyting á álagningardegi og kærufresti lögaðila en henni var flýtt í fyrra. Sú breyting hefur skapað umtalsvert álag á endurskoðendur og bókara sem síðan eykur hættu á því að framtöl sæti ekki eins nákvæmri skoðun og þörf er á. Því er lagt til að álagning lögaðila verði færð á ný aftur um einn mánuð og birt um mánaðarmótin október/nóvember.

Í tveimur tilfellum er lögum breytt vegna nýlegra úrskurða yfirskattanefndar. Í öðru tilfellinu er verið að bregðast við aukningu á lánveitingum einkahlutafélaga til starfsmanna, hluthafa og einstaklinga sem tengjast fjölskylduböndum. Lagt er til að slíkar lánveitingar verði skattlagðar sem tekjur, þ.e. sem gjöf í almennu skattþrepi einstaklinga. Breytingin nær til að mynda til þess ef annað hjóna veitir hinu ólöglegt lán samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Hið sama mun síðan gilda um þau sem skyld eru í beinan legg.

Í hinu tilfellinu er um að ræða skattlagningu hjóna. Hingað til hefur það tíðkast að þegar skattskil einstaklings eru tekin til skoðunar og skattar endurákvarðanir af því tilefni gildi sami frestur til endurákvörðunar um maka hans. Heimild til endurákvörðunar hefur í þessum tilfellum, þegar mál er rannsakað af embætti skattrannsóknarstjóra eða héraðssaksóknara, náð til þess tíma er rannsókn hófst. Almenni fresturinn er hins vegar sex ár aftur í tímann.

Í málinu voru átta ár frá því að rannsókn hófst og endurákvarðaði skatturinn opinber gjöld átta ár aftur í tímann hjá báðum hjónum. Yfirskattanefnd féllst hins vegar ekki á það í tilfelli makans og gilti hin almenna sex ára regla í tilfelli makans. Úrskurður ríkisskattstjóra var því felldur úr gildi. Þess er rétt að geta að yfirskattanefnd klofnaði í afstöðu sinni til málsins.

„Með úrskurði sínum [...] hefur yfirskattanefnd vikið frá áralangri framkvæmd. [...] Ljóst er að úrskurður[inn] skapar réttaróvissu og vandkvæði í framkvæmd skattyfirvalda. Er því brýnt að við honum verði brugðist. Skattrannsóknir hefjast oft ekki fyrr en ár hafa liðið frá þeim skattskilum er þær varða og reynast gjarna tímafrekar. [..] Af niðurstöðu meirihluta yfirskattanefndar [...] leiðir að í sambærilegum tilvikum og úrskurðurinn varðar munu makar og sambúðaraðilar viðkomandi skattaðila komast hjá endurákvörðun opinberra gjalda, til réttmætrar leiðréttingar í samræmi við endurákvörðun skatta skattaðilans, séu þær ekki framkvæmdar innan [sex ára frestsins]. tekjuskattslaganna veitir. Verður hvorki talið ákjósanlegt né sanngjarnt að samsköttun sé rofin með slíku móti til ávinnings fyrir maka eða sambúðaraðila,“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum.

Frestur til að senda inn athugasemdir er skammur eða til 22. nóvember næstkomandi. Viðbúið er að frumvarpið verði lagt fram á þingi áður en þingmenn fara í jólafrí og það keyrt í gegn með nokkrum hraða. Hægt er að smella hér til að kynna sér það og senda inn athugasemdir.