Uli Wiesendanger stofnaði auglýsingastofuna TBWA ásamt hinum grísk-bandaríska William G. Tragos, hinum franska Claude Bonnange og Ítalanum Paolo Ajroldi árið 1970 og er W-ið í nafninu komið af eftirnafni hans.

„Við höfðum allir unnið í auglýsingabransanum um nokkurt skeið, en kynntumst þegar við unnum saman í Parísarskrifstofu Young & Rubicam, sem er bandarískt fyrirtæki. Hjá Y&R var mjög gaman að vinna og þrátt fyrir að vera hluti af bandarísku fyrirtæki var stofan í París mjög evrópsk. Þar lærðum við fjórmenningarnir að hægt væri að líta á Evrópu sem eitt svæði, markaðslega og menningarlega. Við vorum metnaðarfullir ungir menn og töldum að við gætum allt eins rekið okkar eigin stofu í stað þess að vinna fyrir aðra.“

Á meðan Wiesendanger vann hjá TBWA sá auglýsingastofan m.a. um auglýsingaherferðir Apple og Absolut Vodka, en þegar hann er spurður um eftirminnilegustu auglýsingaherferðina fer hann lengra aftur í tímann.

„Þetta var á fyrstu árum stofunnar og við höfðum fengið það verkefni að auglýsa plástra frá frönsku fyrirtæki. Band-Aid plástrarnir frá Johnson & Johnson áttu stærstan hluta markaðarins og þeirra auglýsingar byggðust á því að límið á plástrunum væri best hjá þeim. Við gátum ekki keppt á þeim grundvelli og fengum því lækna til aðstoðar við okkur. Þeir sögðu okkur að það sem léti sár gróa væri loftið sem léki um húðina, en ekki plástrarnir. Við töldum því götin á okkar plástrum og á Band- Aid plástrunum, sáum að við höfðum fleiri göt og notuðum það sem kjarnann í auglýsingunum. Þegar herferðin var að byrja leysti Charles De Gaulle upp franska þingið og boðaði til kosninga. Öll pláss fyrir plaköt voru því full af andlitum stjórnmálamanna. Við létum því búa til litla límmiða, sem litu út eins og plástrar, og límdum þá á kinnar stjórnmálamannanna. Þetta reyndist gríðarlega áhrifaríkt og skilaði umbjóðanda okkar mikilli aukningu í markaðshlutdeild.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .