Michel Platini, forseti evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, tilkynnti í dag að hann hyggist bjóða sig fram sem næsta forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA.

Þessi fyrrum landsliðsmaður Frakklands sendi bréf til formanna þeirra 209 knattspyrnusambanda sem eiga aðild að FIFA og freistar hann þess að hreinsa orðspor knattspyrnunnar eftir að Sepp Blatter lætur af störfum.

„Þetta var mjög vandlega ígrunduð ákvörðun þar sem ég velti fyrir mér framtíð fótboltans sem og eigin framtíð. Stuðningurinn og hvatningin sem ég hef fengið frá ykkur átti einnig þátt í þessari ákvörðun,“ skrifaði Platini.

„Það koma tímar í lífinu þar sem maður verður að taka örlögin í eigin hendur. Ég er á einum af þeim tímapunktum, á kaflaskilum í mínu lífi og að upplifa atburði sem eru að móta framtíð FIFA.“

„Undanfarin 50 ár eða svo hefur FIFA einungis haft tvo forseta. Þessi ótrúlegi stöðugleiki er hálfgerð þversögn í heimi sem hefur tekið miklum stakkaskiptum og í íþrótt sem hefur breyst umtalsvert fjárhagslega. Undanfarnir atburðir neyða knattspyrnuyfirvöld til að snúa við blaðinu og endurskoða stjórnarhætti sína.“

Áhugasamir einstaklingar hafa til 26. október 2015 til að skila inn framboði sínu og verður kosið á þingi FIFA þann 26. febrúar á næsta ári.