Flugfélagið Play var skráð á First North markaðinn í morgun. Alls voru skráð viðskipti fyrir rúmlega hálfan milljarð króna fyrir opnun Kauphallarinnar á genginu 25 krónur á hlut. Til samanburðar var útboðsgengið 20 krónur á hlut fyrir tilboð í áskriftarleið A, þ.e. fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna, og 18 krónur fyrir tilboð í áskriftarleið B (tilboð undir 20 milljónum).

Því er hlutabréfagengi Play nú komið 25% yfir útboðsgengið fyrir áskriftarleið A og 38,9% yfir útboðsgenginu í flokki B.

Áttföld eftirspurn var í hlutafjárútboði Play sem lauk þann 25. júní síðastliðinn en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna . Félagið safnaði ríflega 4 milljörðum króna í útboðinu fyrir 31,7% hlutur í flugfélaginu. Um 4.600 skráðu sig fyrir hlutum í útboðinu.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá áttu sér stað viðskipti með bréf félagsins fyrir útboðið sem voru nokkuð yfir útboðsgenginu eða í kringum 22 til 23 krónur.

Í lokuðu hlutafjárútboði sem félagið stóð að í apríl, áður en að skráningarútboðinu kom miðaðist gengið við tæplega 16 krónur á hlut. Play safnaði um 6 milljörðum króna í þeirri fjármögnunarlotu.