Flugfélagið Play leitar nú eftir fólki í fjórtán stöður á heimasíðu sinni. Störfin sem um ræðir eru nær öll skrifstofustörf í höfuðstöðvum félagsins að Reykjavíkurvegi 76 í Hafnarfirði, að undanskilinni flugumsjón sem verður í Keflavík. Um 50 starfsmenn starfa hjá flugfélaginu í dag.

Félagið auglýsir eftir lögfræðingi, gjaldkera, bókara, þjónustufulltrúa, grafískum hönnuði og sérfræðingum í sölu, markaðsmálum og almannatengslum. Einnig sækist Play eftir aðilum til að sinna vinnuskráagerð og vaktaskrárumsjón áhafna, starfsmanni til að hafa umsjón með ferðabókunum og einkennisfatnaði og einstaklingi til að þróa og hafa umsjón með sölu, afþreyingu og veitingum um borð.

Play lauk 50 milljóna dala hlutafjárútboði í fyrri hluta aprílmánaðar. Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði í Víglínunni um helgina að með þessari fjármögnun sé flugfélagið með nægt fjármagn til að lifa af í tvö ár til viðbótar án þess að hefja farþegaflug.

Sjá einnig: Fjármagnað til næstu tveggja ára

Flugfélagið stefnir að því að fyrsta áætlunarflugið verði í lok júní næstkomandi. Fyrirhugaðir áfangastaðir Play eru meðal annars Alicante, Tenerife, Kaupmannahöfn, París og London.