Flugfélagið Play hefur birt lista á heimasíðu sinni yfir stærstu hluthafa félagsins en félagið lauk 40 milljóna dala, eða um 5 milljarða króna, fjármögnun í liðinni viku.

Stærsti hluthafi Play er eignarhaldsfélagið Fea með 21,3% hlut . Á aðalfundi félagsins þann 12. apríl síðastliðinn, var samþykkt að hækka hlutafé með að breyta skuld félagsins við Fea en starfsemi flugfélagsins hefur verið fjármögnuð af Fea fyrstu starfsmánuði þess. Umrædd fjármögnun fór fram með 10 milljón bandaríkjadala vaxtalausri lánveitingu.

Sjá einnig: Play á markað?

Lífeyrissjóðurinn Birta er næst stærsti hluthafi Play með 12,6% hlut. Birta tók ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair síðasta haust en er þó ennþá einn af tuttugu stærstu Icelandair með 1,3% hlut. Lífsverk lífeyrissjóður er einnig meðal hluthafa Play með 4,3% hlut

Aðrir stórir hluthafar hjá Play, sem hefur ekki enn hafið farþegaflug, eru Fiskisund með 11,9% hlut og Stoðir með 8,4% hlut. Þrír sjóðir frá Akta eru samanlagt með 11,2% hlut í flugfélaginu. Þá er VÍS einnig meðal hluthafa með 1,7% hlut.