Stjórn Play hefur ákveðið að framlengja um tólf mánuði nýtingartímabil kauprétta sem veittir voru nokkrum lykilstjórnendum í aðdraganda skráningar flugfélagsins á First North-hliðarmarkað Kauphallarinnar. Nýtingartímabilinu átti að ljúka í næsta mánuði en það hefur nú verið framlengt til apríl 2024.

Play gerði kaupréttarsamninga við þrettán stjórnendur og aðra lykilstarfsmenn, aðra en forstjórann Birgi Jónsson, um rétt til að kaupa samtals 20 milljónir hluti á genginu 8 krónur á hlut, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir rúmu ári. Til samanburðar var útboðsgengið í frumútboði Play 18 krónur.

Birgir sagði að starfsmennirnir sem fengu kauprétti væru að miklu leyti þeir sem komu að því að ýta félaginu úr vör frá árinu 2019. Tvö ár liðu frá því að undirbúningur hófst þar til fjármögnun félagsins var tryggð og vann starfsfólk á skertum launum stóran hluta þess tímabils.

Í tilkynningu Play til Kauphallarinnar í kvöld kemur fram að fjöldi eftirstandandi hluta sem kaupréttarsamningarnir nái til séu um 16,7 milljónir talsins.

Nýtingartímabil kaupréttanna hófst í apríl 2022. Á þeim tíma var hlutabréfaverð flugfélagsins á bilinu 24-25 krónur á hlut. Síðan þá hefur verðið fallið um meira en helming og stóð í 11,45 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar í dag.