Flugfélagið Play hefur hætt við áætlunarflug til Orlando í Florida ríki í Bandaríkjunum næsta vetur. Flugfélagið hóf sölu á farmiðum til borgarinnar í febrúarmánuði síðastliðnum. Til stóð að flugfélagið myndi fljúga til Orlando þrisvar í viku frá 30. september, en nú er ljóst að ekkert verður af þeim flugferðum.

Play ætlaði jafnframt að skipa þremur Airbus A321neo, tveimur A320neo og einni Airbus A321neo Long Range (LR) næsta sumar, en sú síðastnefnda er langdrægari þota. Flugfélagið hefur nú ákveðið að gera breytingar á flotanum til að bregðast við hækkandi olíuverði.

Breytingin felur í sér að skipta fyrirhugaðri A321neo LR út fyrir Airbus 320neo. Í tilkynningu félagsins sem fylgdi ársfjórðungsuppgjöri segir að breytingin muni skila flugfélaginu hagstæðari kjörum sem tryggi lægri rekstrarkostnað til lengri tíma. Þar af leiðandi mun flugfloti félagsins í sumar innihalda þrjár Airbus 321neo og þrjár Airbus A320neo.

Í samtali við Túrista segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að félaginu hafi boðist önnur þota á góðum kjörum og ákveðið hefði verið að stökkva á það tækifæri.

„Ástandið á flugvélamarkaði eftir að stríðið hófst gerði það að verkum að hægt er að semja um leigu til langs tíma á hagstæðum kjörum. Leigan er þá lægri til langs tíma og greiðslubyrðin minni yfir háveturinn,“ segir Nadine í svari til Túrista.