Flugfélagið Play var rekið með 17,2 milljóna dollara tapi á fyrsta ársfjórðungi, sem nemur um 2,3 milljörðum íslenskra króna miðað við 1,4 milljarða tap á fyrsta fjórðungi fyrir ári. Í uppgjörstilkynningu frá félaginu segir að afkoman hafi verið í takt við væntingar sem geri ráð fyrir að félagið skili rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBIT) á árinu 2023.

EBIT rekstrartap var 17,7 milljónir dollara á ársfjórðungnum miðað við 13,3 milljónir dollara á ársfjórðungnum fyrir ári. Í tilkynningunni segir að kostnaður við uppbyggingu og stækkun leiðakerfis Play fyrir sumarið 2023 hafi haft meiri áhrif á fjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra.

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 32,7 milljónum dollara, samanborið við 9,6 milljónir bandaríkjadala á sama tímabili í fyrra en þá hafði Play ekki hafði flug til Bandaríkjanna og þá voru samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldursins enn hluta fjórðungsins.

Í tilkynningunni segir einnig að Play hafi bætt í tíðni flugferða til vinsælla áfangastaða í Suður-Evrópu. Þá sé bókunarstaðan sterk og til muna betri miðað við sama tímabil á síðasta ári. Play mun fljúga til 37 áfangastaða á árinu og þar af eru þrettán nýir áfangastaðir.

Handbært og bundið fé þann 31. mars var 37,6 milljónir dollara, um 5 milljörðum króna. Þá nam eigið fé félagsins 18,9 milljónum dollara, um 2,55 milljörðum króna í lok fjórðungsins.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, bendir á að fyrsti ársfjórðungur sé ávallt krefjandi í flugrekstri en hann sé ánægður með árangurinn sem náðst hafi á fjórðungnum:

„Okkur er mikil ánægja að skýra frá því að árangur fyrsta ársfjórðungs var í fullu samræmi við væntingar okkar. Við sáum heilbrigðan vöxt og jákvæða þróun á lykilsviðum rekstrarins. Fyrsti ársfjórðungur er alltaf krefjandi í flugrekstri enda eftirspurnin og tekjurnar minni á meðan kostnaður er enn tiltölulega hár vegna margvíslegs undirbúnings fyrir sumarið sem er okkar mikilvægasta tímabil.

Við sjáum mjög jákvæð teikn á lofti og bókunarstaðan er mjög góð. Kostnaður er í góðum skorðum og veigamiklir ytri þættir hafa verið að þróast í rétta átt, svo sem olíuverð. Til vitnis um þessa þróun er sú ánægjulega staðreynd að við státum nú af aukinni lausafjárstöðu eftir fyrsta ársfjórðung, sem er umtalsvert afrek fyrir ungt flugfélag í vaxtarfasa. Nú höfum við ágæta innsýn í árið fram undan og sjáum næstu ársfjórðunga safnast saman í rekstrarhagnað (EBIT) fyrir árið í heild sinni. Vitaskuld er rekstrarumhverfi okkar síbreytilegt og berskjaldað fyrir fjölda ytri þátta, en að svo komnu máli er sannarlega ástæða til bjartsýni.

Sætanýting okkar nam 78,4%, sem er mjög viðunandi á þessum árstíma. Við fluttum 212 þúsund farþega, sem er fjórfaldur fjöldi farþega frá sama tíma í fyrra. Við erum hreykin af stundvísi okkar sem nam 85,5% á fjórðungnum. Hliðartekjurnar hafa vaxið kröftuglega á fjórðungnum og sömuleiðis meðalverðið á farþega. Allt rennir þetta stoðum undir trú okkar á viðskiptamódel félagsins og sannfærir okkur um að gott sumar sé í vændum,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play í tilkynningunni.