Flugfélagið Play tapaði 11,2 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi 2022, eða sem nemur rúmum 1,4 milljörðum króna. Þá var rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði neikvæð um 13,3 milljón Bandaríkjadali, eða um 1,7 milljarða króna.

Í tilkynningu segir að rekstrarniðurstaðan hafi verið viðbúin þar sem félagið hefði ekki enn náð tilætlaðri stærðarhagkvæmni.

Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar hafi haft áhrif á tekjur á ársfjórðungnum. Auk þess hafi stríðið í Úkraínu haft þau áhrif að olíuverð hækkaði töluvert undir lok ársfjórðungsins. Hvort tveggja hafði neikvæð áhrif á fjárhagslega afkomu félagsins.

Flugfélagið mun kynna afkomu fyrsta ársfjórðungs 2022 á opnum streymisfundi á morgun, 25. maí kl. 8:30.

Vaxandi sætanýting

Play flutti 60 þúsund farþega á ársfjórðungnum. Sætanýtingin var 55,7% í janúar en var komin upp í 67% í febrúar og mars. Sætanýtingin heldur áfram að batna og var 72,4% í apríl.

Bókunarstaðan hefur einnig styrkst með hverjum mánuðinum. Í janúar voru 95% fleiri sæti seld miðað við í desember 2021. Í febrúar var 59% aukning á seldum sætum og í apríl voru 336% fleiri sæti seld en í janúar. Þannig voru farþegar í apríl rúmlega 36 þúsund talsins, sem er helmingi fleiri farþegar en í mars.

Sterk fjárhagsstaða og innleiðing olíuvarna

Handbært fé félagsins var 42,12 milljónir Bandaríkjadala í lok mars, eða sem nemur 5,4 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var 22% og er félagið með engar ytri vaxtaberandi skuldir. Einingakostnaður hefur auk þess lækkað með auknum umsvifum. Þannig gerir félagið ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs þar sem einingarkostnaður, að frátöldum eldsneytiskotnaði, minnkar jafnt og þétt, að því er kemur fram í tilkynningu.

Play hefur hafið innleiðingu á olíuvörnum en fyrirtækið hefur gert samkomlag við Skeljung sem samræmist stefnu fyrirtækisins um olíuvarnir. Fyrsta varfærna skrefið hefur verið stigið í innleiðingu á stefnunni og fylgst verður áfram náið með sveiflum í efnahagsmálum í heiminum fyrir næstu skref.

Jafnframt segir að olíugjaldið, sem lagt var á flugfargjöld fyrirtæksins í mars, hafi mildað hluta af hækkun á olíuverði.

Stærra leiðarkerfi tryggi bætta nýtingu

Á öðrum ársfjórðungi 2022 mun Play stækka leiðakerfi sitt í Evrópu og Norður-Ameríku og fljúga á tólf nýja áfangastaði. Áfangastaðir verða því orðnir 26 talsins í sumar og mun heildarfjöldi sæta til sölu á öðrum ársfjórðungi 2022 verða 167% meiri en það sem stóð til boða á fyrsta ársfjórðungi 2022.

Í tilkynningunni segir að stærra leiðarkerfi tryggi bætta nýtingu á flugvélum og öðrum þáttum í starfseminni. Gera megi ráð fyrir umtalsvert lægri einingarkostnaði á öðrum ársfjórðungi samanborið við árið á undan, að frádregnum kostnaði við olíu og annan útblástur.

Birgir Jónsson, forstjóri Play:

„Nú þegar fyrsta ársfjórðungi 2022 er lokið sjáum við og finnum greinilega fyrir aukinni eftirspurn á mörkuðum okkar. Play hefur greinilega náð að stimpla sig inn á erlendu mörkuðunum og náð að styrkja stöðu sína til muna. Eftir krefjandi vetur er mjög gott að finna fyrir þessari jákvæðu þróun á sætanýtingu og sjá vaxandi fjölda farþega mánuð eftir mánuð. Á fyrsta ársfjórðungi var helsta áherslan á að skala starfsemina upp í aðdraganda sumaráætlunarinnar og tengiflugsleiðakerfisins sem fól meðal annars í sér að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk og gera ráðstafanir um að bæta við flotann. Við erum alveg örugg á því að við séum að auka framboð á hárréttum tíma þar sem eftirspurn fer nú ört vaxandi á mörkuðum okkar.“