Arnar Már Magnússon forstjóri flugfélagsins Play, sem stefnt hefur í rúmt ár að því að koma af stað lággjaldaflugi til og frá Íslandi, segir miklar líkur á því að ef Icelandair nýti lánalínur með ríkisábyrgð lendi skuldirnar á ríkissjóði. Veruleg áhætta felist í ríkisábyrgðinni sem jafnframt sé háð því að áætlanir Play um að hefja flugstarfsemi gangi ekki eftir. Þannig sé skattfé sett að veði gegn áformum Play.

Þetta kemur fram í umsögn Play, sem Arnar Már skrifar undir, um frumvarp til laga um ríkisábyrgð til Icelandair, en Play er eitt af sex aðilum sem sendu umsögn um málið til Alþingis, hin eru Atlantik ehf, GoNorth ehf, Neytendasamtökin, SAF og SA sameiginlega og Snæland Grímsson ehf.

Í samantekt umsagnarinnar segir að áhættan sem felist í frumvarpinu fyrir ríkissjóð sé veruleg, því með samþykkt þess geti Icelandair dregið á ríkisstryggðar lánalínur þegar það verði kominn í ósjálfbæra stöðu fjárhagslega og þannig gert skuldastöðu sína enn ósjálfbærari.

Áætlanir byggja á of bjartsýnum spám um tekjuaukningu

Áætlanir um að standa undir skuldbindingum Icelandair eru jafnframt sagðar bjartsýnni en spár greiningaraðila um harða samkeppni í flugi eftir lok heimsfaraldursins gefi tilefni til. Bjartsýnin felist í að tekjur á hverja einingu muni hækka, sem horfi fram hjá „möguleikanum á samkeppni frá innlendum aðila á borð við þá sem félagið glímdi við á uppgangstíma WOW Air“.

Þrátt fyrir það sé aukin samkeppni nefnd sem einn af helstu áhættuþáttum gegn því að spár Icelandair gangi eftir og því einn helsti áhættuþátturinn um hvort reyna muni á ríkisábyrgðina.

„Frumvarpið virðist því sett fram að gefinni þeirri forsendu að áform flugfélagsins Play um að hefja flug frá Íslandi um leið og aðstæður leyfa gangi ekki eftir,“ því þá yrði áhættan að veruleika segir m.a í umsögninni. „Að mati Play er það ótækt að ríkið leggi skattfé með þessum hætti að veði gegn áformum félagins um að veita Icelandair Group samkeppni.“

Vilji Alþingi samt sem áður samþykka ríkisábyrgðina segir í umsögn Play að hækka ætti svokallað ábyrgðargjald verulega í samræmi við viðmið ESA og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, til að skapa hvata til að Icelandair losi sig hratt undan ríkisábyrgðinni.

„Einnig er hvatt til þess að sett verði frekari skilyrði fyrir veitingu ábyrgðarinnar, t.d. að tilteknum lendingarheimildum verði afsalað til samkeppnisaðila, svo lágmarka megi þau neikvæðu áhrif sem af henni munu hljótast,“ segir í lokaorðum umsagnarinnar sem telur sjö blaðsíður.

Önnur atriði sem talin eru upp sem rök gegn ríkisábyrgðinni eru að hún vinni gegn helsta markmiði sínu um að stuðla að tryggum flugsamgöngum því slík ívilnun sé líkleg til að stuðla að fákeppnismarkaði.

Áform um fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair eru í umsögninni sögð óraunsæ því ekki séu neinar skuldbindingar afskrifaðar eða breytt í hlutafé, heldur einungis veittur gálgafrestur á þær. Því blasi greiðslufall við ef félagið þurfi að draga á lánalínurnar með ríkisábyrgð því félagið verði þá orðið illa statt vegna annarra lána sinna.