Sautján af 22 félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar hækkuðu í 4 milljarða króna viðskiptum í dag. Eik leiddi hækkanir en gengi fasteignafélagsins hækkaði um 3,3% í 94 milljóna veltu. Þá hækkaði gengi Sýnar um 3,1% og stendur nú í 67 krónum. Tilkynnt var í morgun um 1,3 milljarða kaup félagsins Fasta en fjárfestingafélag Róberts Wessman var á söluhliðinni í viðskiptunum.

Sjá einnig: Eigendur Reirs kaupa í Sýn af Róberti

Gengi Icelandair fór upp í 2,0 krónur á hlut í morgun en endaði daginn í 1,98 krónum, sem er 2,4% hærra en við lokun markaða í gær. Gengi Icelandair hefur ekki verið hærra frá því í lok apríl.

Á First North-markaðnum hækkaði hlutabréfaverð Play um 3,8% í 140 milljóna viðskiptum og stendur nú í 20,3 krónum á hlut. Gengi Play er því aftur komið yfir 20 króna útboðsgengið í hlutafjárútboði flugfélagsins fyrir skráningu á markað sumarið 2020.

Þá hækkaði hlutabréfaverð Ölgerðarinnar um 2,2% í 157 milljóna veltu og stendur nú í 10,45 krónum á hlut. Gengi Ölgerðarinnar hefur ekki verið hærra frá skráningu í júní og er nú 17,4% hærra en útboðsgengið hjá almennum fjárfestum í útboði félagsins í maí síðastliðnum.