Playboy Enterprises, útgefandi vinsæls og samnefnds tímarits, hyggur nú á nýja útrás og horfir hýrum augum til rómönsku Ameríku, Kína og Indlands. Til stendur að opna skemmtistaði í nafni Playboy auk þess sem opnaðar verða útgáfuskrifstofur ef áætlanir félagsins ganga upp.

Í þessu máli virðist Playboy helst vera að horfa til Brasilíu  en að sögn Scott Flanders, forstjóra Playboy, býður brasilísk menning hvað best upp á það að félagið geti hafið þar starfsemi.

Rekstur Playboy hefur gengið illa undanfarið. Bæði selst tímaritið illa auk þess sem sala á öðrum vörum, sem merktar eru vörumerkinu og verið hafa ein helsta tekjulind félagsins hingað til, hefur hríðfallið síðustu 2-3 ár. Að sögn Flanders gerir Playboy samstæðan þó ráð fyrir hagnaði í ár.

Fyrir utan Brasilíu og fleiri staði í rómönsku Ameríku hefur félagið átt í viðræðum við aðila í Macau í Kína um að opna þar skemmtistað tengdum nafni Playboy. Þá hefur einnig verið rætt við aðila á Indlandi en gera má ráð fyrir að einhver töf verði á opnun skemmtistaða eða útgáfuskrifstofa þar.

Helst er horft til þess að leigja út vörumerkið Playboy. Reuters fréttastofan hafði fyrr á þessu ári eftir innanbúðarmanni hjá Playboy að ekki sé gert ráð fyrir mikilli söluaukningu á tímaritum eða sjónvarpsþáttum félagsins á þessu ári eða næsta en vonast er til þess að önnur söluvara merkt vörumerkinu skili félaginu auknum tekjum. Þar er um að ræða fatnað, bolla, skrifstofuvörur og margt fleira sem ber kanínuna frægu.