Tap bandaríska Playboy samstæðunnar nam á fjórða ársfjórðungi tæpum 146 milljónum Bandaríkjadala eða því sem nemur um 4,37 dölum á hvern hlut samanborið við tap upp á 1,1 milljón dala eða 3 cent á hvern hlut árið áður.

Tekjur samstæðunnar minnkuðu um rúmar 16 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi og námu tæpum 79 milljónum sem þó var yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu búist við tekjum upp á 73,7 milljónir dala.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að stóran hluta tapsins megi rekja til endurskipulags á stjórnendateymi félagsins en sem kunnugt er hætti Christie Hefner, dóttir Hugh Hefnar stofnanda Playboy sem forstjóri félagsins í fyrra auk þess sem aðrar breytingar voru gerðar á stjórnunarteymi félagsins sem það rúmar 157 milljónir dala.

Þá kemur fram að stjórn félagsins íhuga nú sölu félagsins í heild sinni eða að hluta til, jafnvel sölu eða breytingar á flaggskipi samstæðunnar, tímaritsins Playboy Magazine

Tekjur á vörumerkjahluta félagsins lækkuðu um 38% og námu um 4,3 milljónum dala á tímabilinu. Þá lækkuðu einnig tekjur á sjónvarpsframleiðslu samstæðunnar um 21% og námu um 5 milljónum dala.

Plaboy samstæðan sagði upp um 14% starfsmanna sinna á síðasta ári en tekjur félagsins minnkuðu um allt að 30 – 35% á árinu (lokauppgjör liggur ekki fyrir) í ljósi frekari samdráttar.

„Það virðist vera að fólk missi áhuga á [Playboy]kanínunum þegar veskið þynnist,“ hefur Reutes fréttastofan eftir greiningaraðila á Wall Street sem spáir því að félagið verði annað hvort selt á þessu ári eða starfssemi þess dregin verulega saman.

Playboy leitar enn að forstóra en Hugh Hefner, sem nú er orðinn 82 ára gamall ritstýrir blaðinu enn.