Playboy Enterprises, útgáfufélag tímaritsins Playboy, er nú til sölu og samkvæmt frétt BBC gæti það verið ríflega 500 milljóna dala virði, eða andvirði um 63 milljarða króna.

Vinsældir tímaritsins hafa dregist verulega saman frá hátindi vinsælda þess á miðjum áttunda áratugnum. Þá nam upplagið í mánuði hverjum um 5,6 milljónum, en er nú í kringum 800.000 eintök.

Til að mæta breyttum aðstæðum hætti tímaritið nýlega að birta myndir af nöktum konum og var markmiðið með breytingunni að koma tímaritinu í sölu í verslunum sem almennt selja ekki klámfengið efni.

Fjárhagsupplýsingar Playboy Enterprises liggja ekki fyrir, en félagið var skráð úr kauphöll árið 2011 þegar stofnandinn Hugh Hefner keypti allt hlutafé í félaginu ásamt Rizvi Traverse Management árið 2011.