Japanski raftækjaframleiðandinn Sony hefur gert stórar breytingar í framkvæmdastjórn leikjaframleiðanda félagsins, PlayStation. Financial Times greinir frá þessu og segir mannabreytingarnar vera lið í undirbúningi fyrir vaxandi samkeppni við framleiðendur farsímaleikja og heimiltölvuleikja. Auk þess óttast Sony að streymisveitur á borð við Netflix muni gerbylta leikjatölvuiðnaðinum sem velti nú um 34 milljörðum dollara, jafngildi 3.150 milljarða króna.

Jim Ryan, framkvæmdastjóri samsteypunnar í Bretlandi, hefur verið ráðinn til þess að leiða leikjadeild Sony. Ryan mun því ýta næstu kynslóð PlayStation-tölvunnar úr vör, sem greinendur á markaði reikna með að verði hleypt af stokkunum árið 2020.

Telja margir að framleiðsla á PlayStation 4 tölvunni kunni að líða undir lok á næstu misserum þrátt fyrir að mikla sölu á síðasta ári. Fjöldi metsöluleikja litu dagsins ljós í fyrra sem átti stóran þátt í því að yfir 91 milljónir tölva voru selda yfir síðustu jólavertíð.

Greinendur segja tölvuleikjaiðnaðinn nú ganga í gegnum miklar breytingar þar sem farsímaleikir hafi vaxið hratt en veltan í þeim geira iðnaðarins telji nú 60 milljarða dollara. Þá eru leikja-streymisveitur sagðar á næsta leiti og þær kunni að gerbylta markaðinum á sama máta og streymisveitur á borð við Netflix hafi breytt framleiðslu og neyslu á sjónvarpsefni

Playstation er einn af hornsteinum Sony samsteypunnar og skilar tæplega fjórðungi allra tekna félagsins. Hins vegar hafi hagnaður dregist saman um 14% í fyrra miðað við árið 2017.