Það styttist í að Playstation 4 komi til Íslands. Gamestöðinn ætlar að byrja að afhenda eintök á miðvikudag í næstu viku klukkan níu. Það verður því kvöldopnum í verslununum í Kringlunni og Smáralind að þessu tilefni og verður opið til klukkan 23:00.  Allir sem kaupa PS4 verða settir í pott og verða tveir heppnir einstaklingar dregnir út sem fá þá vélina greidda til baka að fullu.

„Við hjá Gamestöðinni erum virkilega spennt fyrir að geta loksins byrjað að selja PS4 til Íslendinga þar sem PlayStation hefur alltaf haft mikla yfirburði á íslenska markaðnum. PS4 hefur nú þegar selst í yfir 4 milljónum eintaka á heimsvísu og er um algjöra byltingu að ræða fyrir leikjaunnendur því liðin eru sjö ár frá því að PS3 kom út,“ segir Ágúst Guðbjartsson framkvæmdastjóri Skífunnar og Gamestöðvarinnar. Hann segir að í fyrstu sendingu komi takmarkað magn.

Elko hefur líka auglýst kvöldopnun á miðvikudaginn. Samkvæmt auglýsingu á vef fyrirtækisins kostar ný tölva um 90 þúsund krónur.