Forstjóri króatíska samheitalyfjafyrirtækisins Pliva segir möguleika á því að mæla með yfirtökutilboði Actavis ef sanngjarnt kauptilboð berst.

Pliva hefur hafnað 1,6 milljarða Bandaríkjadala kauptilboði Actavis, sem fyrirtækið telur of lágt. Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, hefur sagt að félagið gæti hugsanlega hækkað kauptilboðið í kjölfar áreiðanleikakönnunar.

?Við erum ekki á móti sameiningu," sagði Zeljko Covic, forstjóri Pliva á blaðamannafundi í Zagreb í dag. ?Ef sanngjarnt kauptilboð berst munum við mæla með því," sagði Covic.

Pliva er tólfta stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Ef af samrunanum verður mun verða til þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, en Actavis er nú sjötta stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum.