Króatíska lyfjafyrirtækið Pliva er reiðubúið til að hefja yfirtökuviðræður við Actavis, segir Zeljko Covic, forstjóri félagsins, í samtali við Financial Times í dag.

Actavis hækkaði í síðustu viku óformlegt kauptilboð sitt í félagið í 1,85 milljarða dollara (142 milljarðar íslenskra króna) úr 1,6 milljörðum dollara.

Covic segir að Pliva muni skoða tilboð Actavis á jafnréttisgrundvelli en bætir við að félagið hafi einnig átt viðræður við aðra hugsanlega kaupendur.

Hann segir Pliva enn hafa áhyggjur af skuldsetningu Actavis, en félagið hefur fjármagnað vöxt sinn og kaup á öðrum samheitalyfjafyrirtækjum með sambankalánum.