Króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva vill frekar innri vöxt og segir óformlegt kauptilboð Actavis vera of lágt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Actavis greindi frá því fyrr í dag að félagið hefur gert óformlegt tilboð í allt hlutafé Pliva.

Sagt var frá áhuga Actavis á félaginu fyrr í morgun á vefsíðu Viðskiptablaðsins.

Gengi hlutabréfa Actavis og Pliva hækkaði í kjölfar fréttanna. Pliva hafði hækkað um tæp 10% á hádegi, en félagið er skráð í kauphallirnar í London og Zagreb. Gengi bréfa Actavis hefur hækkað um 2,5% frá opnun markaðar.

Tilboð Actavis, sem er með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, var sent Pliva þann 13.mars. Það kveður á um að greitt verði HRK 570 fyrir hvern hlut í félaginu, sem er um 35% yfirverð miðað við meðalgengi hlutabréfa þess síðastliðna 3 mánuði.

Markaðsvirði félagsins, að teknu tilliti til yfirverðs er um 1,6 milljarðar dollara (um 110 milljarðar króna).