Þ27 ehf., félag utan um rekstur pítsustaðarins Plútó Pizza á Hagamel í Vesturbænum, var rekið með 13 milljóna króna tapi á síðasta ári. Tekjur pítsustaðarins námu ríflega 58 milljónum króna en rekstrargjöld námu 74 milljónum króna. Þess ber þó að geta að Plútó Pizza var formlega opnaður fyrir einu ári síðan og nær ársreikningur síðasta árs því aðeins yfir nokkurra mánaða tímabil. Mikill kostnaður getur fallið til við opnun nýrra veitingastaða og því sannarlega svigrúm til staðar fyrir bætta afkomu á yfirstandandi ári.

Eignir námu ríflega 10 milljónum króna í árslok 2020 og eigið fé var neikvætt um 10 milljónir króna. Þá námu skuldir 20 milljónum króna.

Félagið er að 60% hlut í eigu Stefáns Melsted og 40% í eigu Nikulásar Ágústssonar. Í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir ári síðan , er staðurinn var nýopnaður, sagði Stefán grunnhugmyndina á bakvið Plútó Pizzu að vera hverfispizzería sem þjóni Vesturbæingum í takeaway, á einfaldan og þægilegan hátt. „Sem hentar vel fyrir það gríðarlega magn af fjölskyldum sem eru á svæðinu, en svo verðum við líka að selja „slæsur", það er sneiðar.

Þar erum við að elta það sem kallast New York Slice Shop, enda skemmtileg stemning hérna í Vesturbænum, mikið af ungu fólki sem er tilbúið að stoppa stutt við og sækja sér góðan mat. Svo er Ísbúðin hérna við rétt við hliðina á okkur sem er frábært enda mikil traffík í hana og sundlaugin rétt hjá," sagði Stefán.