PNC Financial Services Group hefur keypt National City bankann í Bandaríkjunum. Sameinaður banki verður sá fimmti stærsti í Bandaríkjunum sé tekið mið af innistæðum og í fjórða sæti hvað varðar fjölda útibúa.

PNC verður þar með fyrsti bankinn vestan hafs sem notar hluta af 700 milljarða dala björgunarpakka ríkisvaldsins til að kaupa keppinaut sinn. Bandaríska ríkið hefur keypt hlut í bönkum fyrir lausafé, en aðgerðunum var einkum ætlað að koma hreyfingu á lánamarkað vestanhafs.

Bönkum er hins vegar frjálst að nýta fjármagnið í fjárfestingar og talið er að kaup PNC á National City sé fyrsta yfirtaka af mörgum sem koma í bankageiranum í kjölfar innspýtingar fjármagns ríkisins.

BBC greindi frá.