Örlygur Hnefill Örlygsson, sem rekur Könnunarsafnið, um komu geimfara hingað til lands, sem og Cape hótel, á Húsavík er að vonum ánægður með aukna athygli sem bærinn hefur fengið í kjölfar útgáfu lags sem ber nafn bæjarins úr nýjustu grínmynd stórleikarans Will Ferrell á Netflix: Eurovision Song Contest: The Story Of Fire Saga.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um má jafna dreifingu umræðu um bæinn, Ísland og Eurovision síðustu daga við auglýsingaherferð sem hefði kostað yfir 5 milljarða íslenskra króna, en þess má geta að íslensk stjórnvöld hyggjast setja 1,5 milljarð í kynningarherferð um Ísland sem áfangastaðar í kjölfar hruns ferðamannageirans vegna heimsfaraldursins sem nú geisar.

„Við erum að finna verulega fyrir þessum áhuga á samfélagsmiðlum, sérstaklega á Twitter síðustu daga. Það er sérstaklega skemmtilegt að sjá að ýmislegt markaðsefni sem við höfum verið að gera síðustu árin er að fá byr undir báða vængi aftur þar sem fólk er að setja færslur við gömul kynningarmyndbönd um að það ætli að skella sér hingað næsta sumar og svo framvegis. Þannig að við Húsvíkingar bindum miklar vonir við það sem er að gerast núna vegna þessarar bíómyndar," segir Örlygur Hnefill.

„Leikararnir komu hingað í október og voru einstaklega alþýðleg og kynntust fólki, og eiga margir góðar minningar af pöbbarölti hér með þessum stórleikurum, sérstaklega með Pierce Brosnan. Þau voru öll rosalega vinaleg og dugleg að blanda sér í hópinn, og hafa þau talað um það í viðtölum hvað þeim þótti gaman að vera á Húsavík. Þetta er reyndar ekki farið að skila sér mikið í bókunum enn, en ferðamenn eru farnir að láta sjá sig hérna, þó aðallega Íslendingar. Nú erum við komin í samband við rétthafa Eurovision um aðferðir til að viðhalda þessum áhuga, þar á meðal möguleikanum á að koma upp Eurovision safni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .