Allir nýir lögreglubílar landsins munu vera með spjaldtölvur en Ríkislögreglustjóri gerði nýverið samning við Opin kerfi um kaup á HP ElitePad spjaldtölvum. Samkvæmt tilkynningu er stefnan sú að allir lögreglubílar á landinu verði með spjaldtölvur og að það eigi að gera hraðasektun og sektun vegna annarra umferðarlagabrota mun einfaldari og hraðvirkari.

Segir að spjaldtölvunum fylgi mikill vinnusparnaður hjá lögreglunni þar sem unnt verður að fletta upp einstaklingum strax á staðnum og ganga frá sektinni. Haft er eftir Guðmundi Andrési Jónssyni, tæknilegum tengilið Ríkislögreglunnar, að nú séu sektir skrifaðar á blað með penna og svo sé farið inn á skrifstofu eftir vakt til að skrá sektina inn í kerfi. Með spjaldtölvunum sé hins vegar hægt að skrá sektina strax inn í kerfið og því sé ekki þörf á frekari eftirvinnslu.

Um 20.000 hraðasektir eru gefnar út á ári hverju og tekur um 15 mínútur að skrá sekt á staðnum og svo aðrar 15 mínútur til að ganga frá skráningunni á lögreglustöðinni. Með tilkomu spjaldtölvanna styttist verklag við hraðasektun úr um 30 mínútum í 5 mínútur. Á ársgrundvelli þýðir þetta að um 10.000 vinnustundir sem áður fóru í hraðasektun muni taka um 1.667 vinnustundir.