Fyrirtækin Podium og ProTalent tilkynntu í dag um upphaf sameiginlegs samstarfs. Félögin munu í sameiningu veita fyrirtækjum stjórnendaráðgjöf á sviði stefnumótunar og innleiðingar, með áherslu á breytingastjórnun.

Stjórnendur fyrirtækjanna heita Eva Magnúsdóttir og Hanna Guðlaugsdóttir. Þær hafa lengi starfað við stefnumótun og breytingastjórnun auk fjölbreyttra verkefna á sviði mannauðsmála, greiningar og innleiðingar ferla.

Podium ehf. var stofnað fyrir ári síðan og sérhæfir sig í ráðgjöf í stefnumótun og innleiðingum, samskipta- og markaðsmálum, auk ráðgjafar um þjónustu. Stofnandi fyrirtækisins og eigandi er Eva Magnúsdóttir.

Hanna Guðlaugsdóttir hefur starfað undir merkjum Pro Talent ráðgjafar síðustu þrjú árin. Lykiláherslur Pro Talent liggja í faglegri greiningu og innleiðingu mannauðsferla, ráðgjöf og stuðningi við stjórnendur og starfsheildir.

,,Aukið samstarf styrkir okkur og breikkar þá þjónustu sem við getum boðið fyrirtækjum. Þannig getum við unnið heildarstefnumótunina saman og síðan einbeitir hvor um sig sér að sínu sérsviði,” er haft eftir Hönnu og Evu í fréttatilkynningu.