Pokasjóður hefur ákveðið að afhenda Hjálparstarfi kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd 50 milljónir króna til að styðja skjólstæðinga sína fyrir jólin og fram eftir vetri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pokasjóð en styrkurinn verður í formi gjafakorta sem gilda í matvöruverslunum innan Pokasjóðs.

Gjafakortin eru greiðslukort sem notuð eru með sama hætti og önnur greiðslukort. Inneign á kortunum er annars vegar 5.000 kr. og hins vegar 10.000 kr.

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, tók á móti framlagi Pokasjóðs fyrir hönd þessara tveggja samtaka í hádeginu í dag.

„Þessi úthlutun úr Pokasjóði markar þáttaskil í starfsemi hans, því þetta er í fyrsta skipti sem sjóðurinn úthlutar jafn hárri upphæð í einu lagi,“ segir í tilkynningunni.

„Frá stofnun fyrir 13 árum hefur sjóðurinn styrkt hundruð verkefna á sviði umhverfismála, mannúðarmála, lista, menningar, íþrótta og útivistar með upphæðum á bilinu frá nokkrum tugum þúsunda til allt að 7,5 milljóna. Að þessu sinni er eingöngu úthlutað til mannúðarmála, í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.“

Þá kemur fram að stuðningur Pokasjóðs við Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd er ekki síst veittur í ljósi styrkleika þeirra og getu til að koma til aðstoðar um land allt.

„En þótt þessi stuðningur sé veittur í nafni Pokasjóðs, þá er mikilvægt að hafa í huga að það eru neytendur sem standa þar að baki með kaupum sínum á plastburðarpokum í matvöruverslunum,“ segir í tilkynningunni en helmingur af söluverði plastburðarpoka rennur í Pokasjóð.

Að þessari úthlutun meðtalinni hefur Pokasjóður veitt 850 milljónum króna til verkefna sem stuðla að almannaheill.

Stjórn Pokasjóðs verslunarinnar skipa: Bjarni Finnsson, formaður, Jóhannes Jónsson frá Högum, Sturla Eðvarðsson frá Samkaupum og Höskuldur Jónsson frá ÁTVR.