Vörumerkið Pokémon er verðmætara en vörumerkin Star Wars og Harry Potter til samans, að því er kemur fram í frétt BBC . Pokémon fagnar í dag 25 ára afmæli sínu.

Eflaust muna margir vel eftir Pokémon fárinu sem ríkti meðal ungu kynslóðarinnar í kringum síðustu aldamót. Pokémon spjöld seldust eins og heitar lummur sem og Pokémon tölvuleikir. Milljónir ungmenna víða um heim skiptust á spilum sín á milli og upplifðu ævintýri Pokémon heimsins í gegnum tölvuleiki.

Pokémon áhuginn gekk svo í gegnum endurnýjun lífdaga fyrir nokkrum árum er Pokémon Go snjallsímaleikurinn tröllreið öllu.

Pokémon var sett á fót af Nintendo, í samstarfi við leikjaframleiðendurna Game Freak og Creatures, árið 1996.

Þeir sem hafa varðveitt sjaldgæf Pokémon spjöld í gegnum árin gætu dottið í lukkupottinn, þar sem að sjaldgæf Pokémon spjöld hafa í gegnum tíðina verið seld fyrir allt að 6-stafa tölu í dollurum talið. Sem dæmi má nefna að nú nýlega var sjaldgæft Pokémon spjald, sem var partur af fyrstu útgáfu spjaldanna, selt fyrir rúmlega 400 þúsund dollara eða sem nemur ríflega 50 milljónum króna.