Snjallsímaleikurinn Pokémon GO sem hefur sigrað heiminn að undanförnu stendur nú íslenskum snjallsímanotendum til boða. Ef marka má tilkynningu á opinberri Facebook-síðu leiksins er hann nú fáanlegur í 26 Evrópulöndum til viðbótar við löndin fjögur sem tilkynnt var um í gær. Það voru Ítalía, Spánn, Portúgal og Bretland. Þetta kemur fram á vef Vísis í dag.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í vikunni hafa hutabréf í Nintendo hækkað gríðarlega eftir að leikurinn kom út.

Sérstök Pókémon leikjatölva

Leikurinn byggir á að veiða Pokémon karaktera í umhverfinu, oft í kringum styttur eða aðra merka staði, en slíkt hefur jafnvel gerst í heimahúsum, sem valdið hafa sumum vandræðum, þegar ókunnugir hafa komið að húsinu.

Fyrirtækið á 33% eignarhlut í Pokémon fyrirtækinu sem á vörumerkið. Jafnframt á fyrirtækið hlut í Niantic, sem þróaði leikinn, en það er einnig í eigu Google. Stórfyrirtækið á bakvið leitarvélina græðir jafnframt á leiknum í gegnum söluvef sinn, en það gerir einnig Apple fyrirtækið.

Niantic vinnur með kortagerð og raunveruleikatækni, en leikurinn þykir sýna að það gangi upp að nota þessa tækni saman. Jafnframt hyggst Nintendo, sem lengst af hefur aðallega verið í leikjatölvum, að gefa út sérstakt tæki til að spila leikinn sem heitir Pokémon Go Plus.

Fyrirtækið hefur fært sig hægt út í snjallsímaleikjamarkaðinn, til að vernda leiktækjamarkað sinn, en nú stefnir það á að gefa út 4 nýja leiki fyrir lok mars á næsta ári.