Í kjölfar fyrirtækjakaupa og samþættingar hjá félögum í eigu Promens hf. hefur stjórn félagsins ákveðið nýtt skipurit fyrir samstæðuna sem tekur gildi 1. júlí. Markmiðið með nýja skipuritinu er að gera félagið skilvirkari og betur í stakk búið að stækka enn frekar á alþjóðavettvangi. Þetta kemur frám í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Stærsta breytingin á skipulagi félagsins felst í því að Polimoon Group AS, sem rekið hefur verið sem sjálfstæð eining innan Promens frá því félagið var keypt í desember 2006, verður nú rekið sem hluti af Promens samstæðunni.

Stjórn Promens og Arne Vraalsen sem verið hefur forstjóri Polimoon hafa komist að samkomulagi um að hann láti af starfi forstjóra Polimoon 30. júní næstkomandi en haldi áfram sem ráðgjafi hjá félaginu til ársloka 2007.

Í nýju skipulagi eru megin afkomusvið Promens þrjú: Umbúðir (Packaging), Hverfisteypa (Rotational molding) og Íhlutir (Components). Aukin áhersla verður lögð á innkaup, framleiðni og gæðamál og munu þau heyra undir sérstakt svið. Aðalskrifstofa Promens mun vera áfram á Íslandi en stoðdeild með fjármálastjórnun, upplýsingatækni, innkaupum, framleiðni og gæðastýringu verður komið á fót í Osló í Noregi.



Eftirfarandi aðilar skipa nýja framkvæmdastjórn Promens:

Ragnhildur Geirsdóttir sem tók við starfi forstjóra Promens í janúar 2006 mun áfram leiða samstæðuna.

Fjármálastjóri samstæðunnar og yfirmaður upplýsingatækni verður Adrian Platt sem verið hefur fjármálastjóri Polimoon frá árinu 2000.

Framkvæmdastjóri innkaupasviðs (Sourcing) verður Jón Sigurðsson sem verið hefur fjármálastjóri Promens frá stofnun 2005 og áður hjá Sæplast hf. frá 2004.

Framkvæmdastjóri framleiðsluumbóta og gæðamála (Production Development and Quality) verður Thor Audun Saga sem gengt hefur svipuðu starfi hjá Polimoon frá árinu 2006.

Framkvæmdastjóri hverfisteypusviðs (Rotational Moluding) verður Aart Fortanier sem stýrt hefur hverfisteypuframleiðslu Promens í Evrópu síðan félagið keypti Bonar Plastics árið 2005.

Framkvæmdastjóri íhlutasviðs (Components) verður Erik Feijen sem gengt hefur því starfi hjá Polimoon frá árinu 2002.

Framkvæmdastjóri umbúðasviðs (Packaging) verður Jeroen Hooft sem hefur verið framkvæmdastjóri umbúðasviðs Polimoon á meginlandi Evrópu frá 2002.

?Promens hefur vaxið hratt á síðustu misserum, sennilega hraðar en nokkuð annað fyrirtæki í plastiðnaði. En við hyggjumst ekki láta staðar numið hér. Promens hefur rétt hafið sína vegferð og í kjölfar þessara breytinga erum við komin með stjórnskipulag og stjórnunarteymi sem mun leiða fyrirtækið á komandi misserum og takast á við enn frekar vöxt og samþættingu.? segir Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri Promens.