Polimoon, dótturfyrirtæki Promens hf. hefur lokið samningi um sölu og endurleigu þriggja fasteigna í Noregi og einnar í Danmörku til fasteignasjóðs í eigu Orkla Finans. Heildarupphæð viðskiptanna er 270 milljónir norskra króna eða um 2,8 milljarðar króna og er söluhagnaður Polimoon 180 milljónir norskra króna fyrir skatta og endurmat eigna að því er kemur fram í frétt félagsins.

Þar kemur einnig fram að jákvæð áhrif þessara viðskipta á sjóðstreymi félagsins er 240 milljónir norskra króna að teknu tilliti til skatta. Leigusamningarnir eru til 15 ára og greiðir fyrirtækið samkvæmt þeim 19 milljónir norskra króna á ári sem hækka um 2% árlega. Polimoon er enn eigandi 17 fasteigna sem eru rúmlega 140.000 fermetrar.

?Þessi samningur sýnir glöggt það tækifæri sem við höfum til að nýta betur til vaxtar þau verðmæti sem liggja í Polimoon og auka með því arðsemi hlutafjár í félaginu? ? segir Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri Promens í tilkynningunni.

Polimoon er leiðandi fyrirtæki í Evrópu í framleiðslu og sölu á plasthlutum. Fyrirtækið starfrækir 41 verksmiðju um alla Evrópu. Polimoon þróar, framleiðir og selur mikið úrval plastvara s.s. pakkningar fyrir ýmiskonar matvæli, snyrtivörur, sápur og hreinsiefni og pakkningar fyrir hættuleg efni og olíur. Fyrirtækið framleiðir einnig ýmsar vörur fyrir lækninga og lyfjaiðnað ásamt íhlutum fyrir bílaiðnaðinn. Polimoon er með u.þ.b. 4300 starfsmenn. Árleg velta Polimoon er yfir 560 milljónir evra.