Polimoon ASA hefur tilkynnt að nafni félagsins hafi verið breytt í Promens. Nafnabreytingin markar tímamót í samþættingu félaganna, sem hófst þegar Promens keypti Polimoon í desember 2006.  Í tilkynningu kemur fram að Promens hefur nú sameinað alla starfsemi sína undir einu nafni sem styrkir mjög ímynd félagsins og einfaldar samskipti bæði innan samstæðunnar sem út á við gagnvart viðskiptavinum, birgjum, fjárfestum og öðrum sem félagið starfar með.

Promens, sem er þekkt sem stærsti plastframleiðandi heims á sviði hverfisteypuframleiðslutækni, ræður nú einnig yfir flestum helstu framleiðsluaðferðum plastiðnaðarins. Vöruframboð samstæðunnar hefur þarf að leiðandi vaxið gífurlega og er Promens nú eitt af fáum fyrirtækjum innan plastgeirans sem getur þjónað öllum þörfum sinna viðskiptavina og er þar að auki með verksmiðjur í fjórum heimsálfum.

"Sameining undir einu nafni er einfaldasta aðferðin til að koma til skila kostunum við sameiningu Polimoon og Promens. Vöxtur Promens undanfarin tvö ár hefur verið ævintýri líkastur. Við höfum fengið aðgang að nýjum mörkuðum og getum nú boðið viskiptavinum okkar upp á allar framleiðsluaðferðir frá sama framleiðandanum. Promens hefur náð að skapa sér sterka ímynd á skömmum tíma og sú ímynd mun styrkjast enn frekar nú þegar öll starfsemin fer fram undir sömu merkjum" segir Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri Promens.