Ekki var einhugur um það milli Ríkisútvarpsins (RÚV) og menntamálaráðuneytisins (MRN) annars vegar og ráðherra málaflokksins hins vegar um það hvort félaginu bæri að stofna dótturfélag um samkeppnisstarfsemi eður ei. Stjórn RÚV hélt að sér höndum að beiðni ráðuneytisins meðan ráðherra skipti um skoðun um það hvort dótturfélag yrði stofnað. Umræður um pólitík og heppilega ráðherra til að halla höfði að eru á tíðum fyrirferðarmeiri en umræður um rekstur.

Þetta er meðal þess sem lesa má úr fundargerðum stjórnar RÚV af stjórnarfundum frá ársbyrjun 2018 til júlíloka 2019. Í nóvember á síðasta ári lauk ríkisendurskoðandi stjórnsýsluúttekt á starfsemi RÚV. Var þar meðal annars vikið að því að RÚV hefði látið undir höfuð leggjast að stofna dótturfélög um samkeppnisstarfsemina þrátt fyrir skýran lagabókstaf um efnið. Fundargerðirnar bera með sér að unnið hafi verið að því með ráðuneytinu að fá umrætt lagaákvæði fellt úr gildi.

Annað mál sem var nokkuð til umræðu framan af á fundunum var staða á láni vegna skuldbindingar RÚV við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) vegna eldri lífeyrisskuldbindinga starfsmanna. Þegar RÚV var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007 fylgdi umrædd skuld, þá á þriðja milljarð króna, með. Um nokkurt skeið hafði félagið tekið bankalán til að fjármagna afborganir eða fengið að fresta gjalddögum.

Láninu var skilmálabreytt á vormánuðum 2018, höfuðstóll hækkaður, vextir lækkuðu og lengt í því fram til ársins 2057. Við breytinguna lækkuðu afborganir langtímaskuldbindinga um 250 milljónir króna árlega. Umrætt skuldabréf er með ábyrgð ríkisins.

Starfshópur var stofnaður um efnið í byrjun árs 2018 en virðist hann hafa fundað mjög sjaldan síðan þá. Málið var rætt á fundi stjórnar í júní 2019 og kom þá fram að hópurinn hefði aðeins fundað einu sinni. Stjórnarmaðurinn Jón Ólafsson lýsti yfir áhyggjum af stöðunni og sagði að málið hefði sofnað hjá stjórnvöldum um leið og skilmálabreytingin fór í gegn.

„[Mörður Árnason] segist ekki eiga von á því að það gerist mikið hjá núverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Forsætisráðherra sé mikilvægur í þessu samhengi. [Birna Þórarinsdóttir] var sammála þessu,“ er meðal annars ritað í gerð þess fundar. Um er að ræða síðustu fundargerðina af þeim sem blaðið fékk afhent.

Trössuðu að svara í hálft ár

Viðskiptablaðið fékk aðgang að fundargerðunum í krafti upplýsingalaganna en óhætt er að segja að það hafi ekki gengið smurt fyrir sig. Blaðið óskaði í ágúst í fyrra eftir afritum af fundargerðum með beiðni í tveimur þáttum. Sá fyrri tók til fundargerða frá ársbyrjun 2018 til þess dags er beiðnin var send en sá síðari varðaði fundargerðir 2013-17. Þar sem fyrirséð var að vinnsla beiðninnar tæki nokkra stund var þess óskað að fyrri þátturinn yrði afgreiddur fyrst en sá síðari mætti afgangi.

Lítið heyrðist hins vegar frá RÚV næstu þrjá mánuði og í nóvember kvartaði blaðið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál (ÚNU) og óskaði eftir því að nefndin ýtti á eftir fyrirtækinu. Það dugði hins vegar skammt en RÚV trassaði það í þrjá mánuði að virða fyrirmæli ÚNU.

Á endanum varð það niðurstaðan að nefndin tók málið til efnislegrar meðferðar án þess að RÚV hefði tekið afstöðu í því. Er það í fyrsta skipti sem sú heimild upplýsingalaganna, sem kom inn í lögin í fyrra, er nýtt. Þótti nefndinni tilefni til að finna sérstaklega að sinnuleysi RÚV vegna málsins.

ÚNU féllst á það með RÚV að afmá mætti tilteknar upplýsingar úr fundargerðunum, annars vegar á grunni þess að þar væru einkamálefni starfsmanna á ferð, á það helst við um framgöngu spyrla í kosningasjónvarpi RÚV árið 2018, og síðan sökum þess að um vinnugögn væri að ræða.

Lögmannsstofa hér í borg var fengin til að fara yfir fundargerðirnar og senda inn andmæli fyrir nefndinni. Kostnaður félagsins vegna þessa var rúmlega 560 þúsund krónur. RÚV hefur enn ekki tekið afstöðu til afhendingar fundargerða áranna 2013-17 eða frá síðari hluta 2019 til dagsins í dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .