Allt stefnir í að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að Alþingi falli frá ákærunni á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, nái ekki fram að ganga. Tillagan verður tekin til umræðu á Alþingi á morgun, föstudag.

Sem kunnugt er lagði þingmannanefnd undir forystu Atla Gíslasonar það til við Alþingi að fjórir fyrrverandi ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn haustið 2008 yrðu ákærðir og mál gegn þeim rekið fyrir landsdómi. Þetta voru ráðherrarnir Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Björgvin G. Sigurðsson og Árni M. Mathiesen.

Að lokinni atkvæðagreiðslu um málið var niðurstaðan sú að Geir H. Haarde var einn ákærður, en þar réði mestu um hvernig þingflokkur Samfylkingarinnar greiddi atkvæði í málinu. Hluti þingflokksins greiddi atkvæði gegn því að ákæra fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar og Árna, en með því að ákæra Geir H. Haarde. Þá klofnaði þingflokkur Framsóknarflokksins einnig í málinu.

Bjarni lagði fyrrnefnda tillögu fram fyrir áramót. Málið hefur valdið stjórnarflokkunum miklum vandræðum frá því að það var lagt fram og fyrir áramót var samið við forystu Sjálfstæðisflokksins um að taka málið fyrir nú í janúar.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Geir H. Haarde - Blaðamannafundur 06.06.11
Geir H. Haarde - Blaðamannafundur 06.06.11
© Aðsend mynd (AÐSEND)